MiFID II

Breytingar á MiFID II með tilliti til sjálfbærni

Hvað er átt við þegar talað er um sjálfbærnióskir fjárfesta?

Fjármálafyrirtæki sem veita eignastýringarþjónustu eða fjárfestingarráðgjöf verða að spyrja fjárfesta hvort þeir hafi sérstakar óskir um sjálfbærni áður en þjónustan er veitt, samkvæmt lögunum.

Þessum upplýsingum er aflað í svokölluðu hæfismati sem fjármálafyrirtækjum er skylt að framkvæma áður en eignastýringarþjónusta eða fjárfestingarráðgjöf er veitt.

Hvað þýðir þetta fyrir fjárfesta?

Fjármálafyrirtæki verða að taka tillit til sjálfbærnióska og neyðast til að vísa fjárfestum frá ef þau geta ekki uppfyllt óskir þeirra.

Fjárfestar geta þó ákveðið að aðlaga óskir sínar að vöruúrvali fjármálafyrirtækisins.

Fjárfestar geta mótað sjálfbærnióskir sínar út frá þremur valkostum:

Valkostur 1: Umhverfislega sjálfbærar fjárfestingar

Að ákveðið lágmarkshlutfall fjárfestingarinnar uppfylli skilyrði þess að vera „umhverfislega sjálfbærar fjárfestingar“. Þ.e. að þær séu að hluta til grænar í samræmi við ákvæði flokkunarreglugerðar ESB (e. EU Taxonomy).

Fjárfesting sem:

  • Stuðlar verulega að umhverfismarkmiði.
  • Veldur ekki umtalsverðu tjóni á umhverfismarkmiðunum.
  • Samræmist tilteknum félagslegum lágmarkskröfum.
  • Samræmist nákvæmum viðmiðunarreglum.

Fastmótuð viðmið í flokkunarkerfi ESB. Lítið sem ekkert svigrúm til mats.

Valkostur 2: Sjálfbærar fjárfestingar

Að ákveðið lágmarkshlutfall fjárfestingarinnar geti talist vera „sjálfbærar fjárfestingar“, eins og það er skilgreint í reglugerð ESB um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni (e. SFDR).

Fjárfesting sem:

  • Stuðlar að umhverfismarkmiði eða félagslegu markmiði.
  • Veldur ekki umtalsverðu tjóni á umhverfismarkmiðunum.
  • Fylgir góðum stjórnarháttum.

Matskennt. Fjármálafyrirtæki hafa svigrúm til að móta eigin aðferð til að meta hvað telst vera sjálfbær fjárfesting.

Valkostur 3: Fjárfestingar sem taka tillit til neikvæðra áhrifa á sjálfbærniþætti

Að fjárfest sé í vöru sem tekur tillit til „helstu neikvæðu áhrifa á sjálfbærniþætti“ (e. Principal Adverse Impact eða PAI).

Fjárfestar velja tiltekna neikvæða eiginleika fjárfestinga sem þeir vilja að teknir séu sérstaklega til greina við fjárfestingarráðgjöf eða töku fjárfestingarákvarðana.

Fjárfestar geta t.d. valið að tekið verði sérstakt tillit til útblásturs gróðurhúsalofttegunda þegar fjárfestingarkostir eru ákveðnir.

Skýringar

Hvað eru sjálfbærniþættir?

Umhverfis-, félags- og starfsmannatengd mál, virðing fyrir mannréttindum, mál sem varða baráttuna gegn spillingu og mútum.

Hugtakið er skilgreint í 24. tölul. 1. mgr. 2. gr. SFDR.

Hvað eru neikvæð áhrif á sjálfbærniþætti?

Þau helstu neikvæðu áhrif af atvinnustarfsemi á sjálfbærniþætti sem má rekja til fjárfestingarákvörðunar, þegar áhrifin eru annað hvort veruleg eða líklega veruleg.

Slík neikvæð áhrif eru á ensku nefnd principal adverse impacts, skammstafað PAI.

Hver eru umhverfismarkmiðin?

1. Mildun loftslagsbreytinga.

2. Aðlögun að loftslagsbreytingum.

3. Sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda.

4. Umbreyting yfir í hringrásarhagkerfi.

5. Mengunarvarnir og -eftirlit.

6. Verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Hvað þýðir "fylgir góðum stjórnarháttum"?

Fjárfesting sem fylgir góðum stjórnrháttum þýðir að félögin sem fjárfest er í fylgi góðum stjórnarháttum, einkum að því er varðar traust stjórnunarfyrirkomulag, samskipti við starfsmenn, launakjör starfsmanna og að skattareglum sé fylgt.