Flokkunareglugerð ESB (e. EU Taxonomy)

Flokkunarkerfi Evrópusambandins

Reglugerð (ESB) 2020/852 sem í daglegu tali er kölluð flokkunarreglugerð ESB (e. EU Taxonomy) var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Flokkunarreglugerðin setur fram samræmt flokkunarkerfi með því að lýsa hvaða viðmiðum atvinnustarfsemi þarf að fullnægja til að teljast vera umhverfislega sjálfbær, og gerir fyrirtækjum kleift að meta hvort starfsemi þeirra sé umhverfislega sjálfbær eða ekki.

Flokkunarkerfið skapar sameiginlegt tungumál í umræðu um sjálfbærni og samræmir skilning á hugtakinu umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi.

Atvinnustarfsemi telst umhverfissjálfbær í skilningi flokkunarkerfisins þegar hún fylgir fjórum viðmiðum sem útlistuð eru í 3. gr. reglugerðarinnar:

1. Stuðlar verulega að einu eða fleiri umhverfismarkmiðum

Atvinnustarfsemi skal stuðla verulega að einu eða fleiri af sex umhverfismarkmiðum sem skilgreind eru í flokkunarreglugerðinni, en markmiðin eru:

a) mildun loftslagsbreytinga,

b) aðlögun að loftslagsbreytingum,

c) sjálfbær notkun og verndun vatns-og sjávarauðlinda,

d) umbreyting yfir í hringrásarhagkerfi,

e) mengunarvarnir og -eftirlit, og

e) verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

2. Skaðar ekki verulega önnur umhverfismarkmið

Atvinnustarfsemi má ekki skaða verulega hin umhverfismarkmiðin (e. do no significant harm).

3. Er stunduð í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir

Atvinnustarfsemi skal vera stunduð í samræmi við svonefndar lágmarksverndarráðstafanir (e. minimum safeguards), þ.e. skal lágmarksfylgni við viðmið OECD og Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og viðskipti vera tryggð.

4. Hlítir tæknilegum matsviðmiðum

Atvinnustarfsemi skal hlíta tæknilegum matsviðmiðum sem útlista nánar hvernig atvinnustarfsemi getur stutt við tiltekin umhverfismarkmið.

Slík tæknileg viðmið eru sett með framseldum reglugerðum.

Til viðbótar við flokkunarkerfið sjálft, þá leggur flokkunarreglugerðin tilteknar upplýsingaskyldur á aðila á fjármálamarkaði sem markaðssetja fjármálaafurðir, eins og sjóði eða eignaleiðir, sem sjálfbærar.

Þeir þurfa að upplýsa um að hve miklu leyti afurðin fjárfestir í umhverfissjálfbærri atvinnustarfsemi, og því horfir reglugerðin í gegnum fjárfestingu og einblínir á atvinnustarfsemi útgefenda. Þannig þarf að rökstyðja allar fullyrðingar um sjálfbærni.

Hvaðan eiga aðilar á fjármálamarkaði að fá upplýsingar um sjálfbærni einstakra fjármálagerninga og útgefenda þeirra?

Slíkar upplýsingar eiga samkvæmt flokkunar-reglugerðinni að koma frá útgefendunum sjálfum, en reglugerðin leggur upplýsingarskyldur á útgefendur (oft nefndar 8. gr. upplýsingagjöf). Þeir aðilar sem skyldugir eru til að birta sjálfbærniupplýsingar samkvæmt lögum um ársreikninga þurfa jafnan að birta árlegar upplýsingar um umhverfissjálfbærni eigin atvinnustarfsemi.

Upplýsingarnar eiga bæði að snúa að hæfi atvinnustarfseminnar til að falla innan flokkunarkerfisins og samþættingu við það. Þar með er tryggt að samræmi í upplýsingum um sjálfbærni sé sem mest.