Viltu taka þátt í vinnuhópum IcelandSIF?

15/08/2024

Stjórn IcelandSIF leitar að einstaklingum sem starfa hjá aðildarfélögum eða aukaaðilum sem vilja taka þátt í starfi samtakanna. Starfræktir verða þrír hópar á vegum samtakanna starfsárið 2024-2025.

Fræðslu- og upplýsingahópur

Tilgangur hópsins er að standa að faglegri og aðgengilegri fræðslu um sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar. Hópurinn skipuleggur viðburði og útbýr fræðsluefni m.a. um sjálfbærar og ábyrgar fjármálaafurðir og tekur virkan þátt í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla og samstarfsaðila. Formaður fræðsluhópsins er Þráinn Halldórsson hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem jafnframt situr í stjórn IcelandSIF.

Lögfræðihópur

Tilgangur hópsins er að taka saman og miðla efni sem tengist núverandi og framtíðarlöggjöf á sviði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga sem snerta félagsaðila með einum eða öðrum hætti. Hópurinn skipuleggur jafnframt viðburði á því sviði. Formaður lögfræðihópsins er Vilhjálmur Þór Svansson hjá Creditinfo, sem jafnframt situr í stjórn IcelandSIF.

Miðlunarhópur

Tilgangur hópsins er að miðla efni sem verður til á vettvangi samtakanna til félagsaðila með aðgengilegum hætti, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. Hópurinn skipuleggur viðburði í samstarfi við stjórn og aðra vinnuhópa innan samtakanna. Formaður miðlunarhópsins er Helena Guðjónsdóttir hjá Kviku, sem jafnframt situr í stjórn IcelandSIF.

Það er markmið stjórnar IcelandSIF að öflugir vinnuhópar efli umræður og fræðslu á vegum samtakanna og stuðli þannig að árangursríkri, faglegri og upplýsandi umfjöllun um sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar fyrir félagsaðila.

Hafir þú áhuga á að taka þátt í vinnuhópum IcelandSIF hvetjum við þig til að sækja um hér eða með því að senda tölvupóst á arnar.hardarson@icelandsif.is. Æskilegt er að með umsókn fylgi stutt kynning á umsækjanda. Reynsla á sviði sjálfbærni er kostur en ekki skilyrði.

Umsóknarfrestur er til og með 30. ágúst næstkomandi og stjórn IcelandSIF mun skipa í vinnuhópa í byrjun september. Takmarkaður fjöldi þátttakenda er í hverjum vinnuhóp fyrir sig.