Viðtal við Kajsa Brundin hjá SweSIF

19/01/2018

Kajsa Brundin er sérfræðingur í ábyrgum fjárfestingum og stjórnarmaður í sænsku systursamtökunum SweSIF. Kajsa var fengin í viðtal um ábyrgar fjárfestingar og hlutverk samtaka á borð við SweSIF og IcleandSIF.

kajsa_brundin.jpg

Hvað eru ábyrgar fjárfestingar og hvers vegna eru þær mikilvægar?

Ábyrgar fjárfestingar vísa til þess að tekið er tillit til umhverfis- og samfélagsþátta, stjórnarhátta og siðferðis  í fjárfestingarákvörðunum. Ég tel þetta mjög mikilvægt vegna þess að það er svo margt að gerast á þessu sviði núna. Við fáum fjölmargar fyrirspurnir frá stjórnvöldum en einnig frá neytendum. Fólk vill vita að fjárfestingar þeirra séu meðhöndlaðar á ábyrgan hátt. 

Hvers vegna ættu fjárfestar og fjármálastofnanir að taka ábyrgar fjárfestingar alvarlega?

Ef horft er til framtíðar er vægi þessara mála sífellt að aukast. Mikið er talað um hlýnun jarðar. Við getum vænst þess að ýmsar atvinnugreinar muni þurfa að undirgangast örar breytingar af þessari ástæðu einni saman, svo dæmi sé tekið. Sem fjárfestir þarftu að hafa skoðun á þessum málum, hvernig fjárfestingar þínar taka á þessum málum, því það er mikilvægt hvað varðar framtíðar verðmætasköpun fjárfestinganna. 

Hefur orðið vitundarvakning um ábyrgar fjárfestingar á undanförnum árum og hvernig er þetta á Norðurlöndunum?

Áhugi fjárfesta og sparifjáreigenda á þessu málefni vex stöðugt, ég myndi segja dag frá degi. Svo margir eru að spyrja spurninga sem þeir spurðu ekki fyrir ári, tveimur, þremur árum síðan. Þannig að það er pottþétt kominn skriður í málið. 

Hvernig eru ábyrgar fjárfestingar ástundaðar í Svíþjóð? Hvernig hafa sænskir fjárfestar innleitt hugmyndafræðina í fjárfestingastefnur sínar og hverjar eru áherslur sænskra lífeyrissjóða?

Sænskir lífeyrissjóðir hafa unnið með þessi málefni í fjölda ára. Þetta hófst fyrir 10-20 árum en þá var áherslan á neikvæða skimun, þ.e. að finna atvinnugreinar eða hegðun sem töldust neikvæðar og útiloka þær úr fjárfestingamenginu. Nú leggjum við mun meiri áherslu á jákvæða skimun þar sem leitað er að fyrirtækjum og fjárfestingarmöguleikum sem eru að standa sig vel, eða jafnvel að leita að aðilum sem ekki eru að standa sig vel og reyna að hafa áhrif til breytinga, að beita áhrifavaldi sínu sem fjárfestir til að breyta þeim til batnaðar. Þannig að þetta eru nýjar áherslur hjá sænskum lífeyrissjóðum. 

Hvert er hlutverk SweSIF?

SweSIF gegnir víðtæku hlutverki í fjármálaheimi nútímans. Við leitumst við að vera vettvangur sem hvetur til umræðu um sjálfbærar fjárfestingar og að vera tengslanet fyrir fagfólk í greininni. En við viljum einnig vera vettvangur verkefnavinnu. Eitt af verkefnum okkar hefur náð mjög góðum árangri. Það er sniðmát fyrir skýrslugerð, hvernig miðla skal upplýsingum um sjálfbært starf sjóða. Þetta er dæmi um eitthvað sem atvinnugreinin hefur skapað saman á vettvangi SweSIF. 

Er þörf fyrir samtök á borð við SweSIF á Íslandi?

Það er svo sannarlega þörf fyrir samtök á borð við SweSIF á Íslandi. Okkur hefur fundist mjög hjálplegt að hafa sameiginlegan vettvang til umræðna. Tengslanetið er líka mjög mikilvægt, að vita hvern á að tala við og hver hefur unnið að svipuðum málum áður. Það er mjög hjálplegt að hafa SweSIF. 

Hvað getur Ísland lært af reynslunni í Svíþjóð og hinum Norðurlöndunum í þessum málum?

Ég tel Ísland geta lært mikið af að skoða hverju við höfum þegar áorkað á Norðurlöndunum. Mér skilst að Ísland og íslenski markaðurinn sé mjög ólíkur hinum norrænu mörkuðunum. Engu að síður má leita innblásturs í verkefnum sem við höfum reynt okkur við, stundum árangurslaust, en stundum hefur okkur tekist að marka stefnur sem gætu nýst ykkur í framtíðinni.

Getur þú gefið dæmi um eitthvað sem tókst vel?

Eitt sem við hjá SweSIF erum mjög stolt af að hafa gert er sjálfbærnimat þar sem við söfnuðum saman öllum meðlimum SweSIF og samþykktum staðal sem beita má til að sýna hvernig sjóður vinnur með sjálfbærnimál, bæði með neikvæðri skimun og útilokun og ef reynt er að finna margvísleg sjálfbærniviðmið sem fjárfest er í eða ef reynt er að beita áhrifavaldi sem fjárfestir. Þetta snýst s.s. um hvernig á að útskýra þetta fyrir viðskiptavininum í samræmi við ákvarðanir SweSIF.

Hvernig sérðu fyrir þér að þessi mál þróist í framtíðinni?

Ég sé að vægi sjálfbærra fjárfestinga eykst nú dag frá degi. Nú til dags er mun meiri áhersla lögð á aðgerðir sem skila raunverulegum árangri. Þróunin hefur verið frá neikvæðri skimun, þar sem sneitt er hjá ákveðnum atvinnugreinum, yfir í stefnur sem stuðla að raunverulegum breytingum í heiminum, ábyrgari eigendastefnum, fjármögnun umhverfisvænna verkefna og örfjármögnun. Fyrirtæki eru að skoða marga nýja möguleika sem geta skilað raunverulegum árangri, að mínu mati.