Mánudaginn 21. október stóð IcelandSIF fyrir morgunfundi með Sean Kidney, framkvæmdastjóra og stofnanda Climate Bonds Initiative. Fundurinn, sem var haldinn í Ásmundarsal, var vel sóttur af áhugasömum fundargestum og meðlimum IcelandSIF.
Climate Bonds Initiative eru alþjóðleg samtök sem vinna að því að virkja skuldabréfamarkaði á heimsvísu í þágu umhverfismála og veita ríkisstjórnum víða um heim ráðgjöf í þeim efnum, einkum og sér í lagi varðandi útgáfu grænna skuldabréfa.
Kidney fór m.a. yfir gríðarlegan vöxt grænna skuldabréfamarkaða á heimsvísu og nýjar reglur Evrópusambandsins í umhverfismálum. Kidney taldi Ísland vera framar í umræðu um umhverfismál en margar aðrar þjóðir sem endurspeglaðist m.a. í miklum áhuga innlendra fjárfesta á grænum skuldabréfum. Þá telur Kidney Ísland vera með mörg spennandi verkefni tengd umhverfismálum sem kynna þyrfti betur utan landsteinanna og nefndi þar sérstaklega CarbFix verkefnið í Hellisheiðarvirkjun.
Að síðustu benti Kidney á að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að Ísland yrði fyrsta þjóðríkið í sögunni til að gefa eingöngu út græn skuldabréf og yrði þannig leiðandi í umhverfismálum á heimsvísu.
Sean Kidney