Frummælendur voru Hildur Einarsdóttir, rafmagnsverkfræðingur hjá Össuri, Atli Þór Jóhannsson hjá Félagi löggiltra endurskoðanda og Halldór I. Pálsson frá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra. Fundarstjóri var Kristján Geir Pétursson, lögfræðingur hjá Birtu lífeyrissjóði.
Hildur fór í erindi sínu yfir ófjárhagslega upplýsingagjöf í starfsemi Össurar, og benti á að krafan um aukna upplýsingagjöf hafi ekki síst komið frá viðskiptavinum fyrirtækisins. Margt hefði verið gert til að auka sjálfbærni í framleiðslu fyrirtækisins, þ.m.t. í vöruhönnun og umbúðahönnun. Sem dæmi, hefði tekist að draga úr notkun á umbúðaplasti um 80% og pappa um 30%. Hildur fór sömuleiðis yfir mælikvarða og aðgerðir á sviði félagsmála og stjórnarhátta hjá fyrirtækinu.
Atli Þór frá FLE fór yfir áhrif reglna um ófjárhagslega upplýsingagjöf á störf endurskoðenda. Vísaði hann m.a. til leiðbeininga ESB frá 2017 sem ársreikningaskrá ríkisskattstjóra hefur stuðst við í eftirliti með innleiðingu á reglum ársreikningalaga. Atli benti á að óvissa væri um túlkun á ákvæðum ársreikningalaga sem lúta að endurskoðun ófjárhagslegra upplýsinga og hvaða skyldur væru lagðar á endurskoðendur að þessu leyti skv. lögunum. Endurskoðendaráð hefði sent erindi þess efnis til stjórnvalda. Atli Þór sagði ljóst að atbeina fleiri sérfræðinga en löggiltra endurskoðenda þyrfti til að endurskoða ófjárhagslega upplýsingagjöf til framtíðar og að samtal um þetta efni þyrfti að eiga sér stað milli notenda og endurskoðenda.
Halldór I Pálsson hjá ársreikningaskrá RSK fór yfir hlutverk stofnunarinnar við eftirlit með reikningsskilum og valdheimildir stofnunarinnar, m.a. við álagningu stjórnvaldssekta til að knýja á um tímanleg skil gagna. Halldór ræddi þær breytingar sem urðu á ársreikningalögum árið 2016 þegar tilskipun ESB um ófjárhagslega upplýsingagjöf var innleidd í íslenskan rétt, sbr. 66. gr. d. ársreikningalaga nr. 3/2006. Í eftirlit með reikningsskilum vegna ársins 2017 hafi sérstaklega verið farið yfir framsetningu ófjárhagslegra upplýsinga. Niðurstaðan hafi leitt í ljós að upplýsingagjöf fyrirtækja sem heyra undir reglurnar var verulega ábótavant. Ljóst sé að skerpa þurfi á lögum svo bæta megi framsetningu og samræmingu upplýsinga eins og kostur er og svo stjórnendum fyrirtækja verði betur ljóst hvaða skyldur lögin leggja á viðkomandi aðila.
Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar. Mjög vel var mætt á fundinn sem er til marks um aukinn áhuga á samfélagsábyrgð meðal íslenskra fyrirtækja.