Valkvæðir kolefnismarkaðir

24/10/2024

Við minnum á viðburð IcelandSIF í næstu viku, þann 30. október kl. 9:00 í höfuðstöðvum Landsbankans. 

Viðburðurinn ber yfirskriftina "Kolefnismarkaðir - áhættur og tækifæri fyrir fjárfesta" en valkvæðir kolefnismarkaðir fara vaxandi í umfangi sem felur í sér bæði áhættur og tækifæri fyrir fjárfesta til framtíðar. Nauðsynlegt er að draga þessi atriði upp á yfirborðið til frekari umræðu og greiningar svo hægt sé að átta sig á mögulegum fjárhagslegum áhrifum á eignasöfn fjárfesta.

Hægt er að skrá sig á fundinn með því að smella hér.

Hér að neðan má nálgast frekari upplýsingar um valkvæða kolefnismarkaði:

Valkvæðir kolefnismarkaðir

Kolefnismarkaðir skiptast í viðskiptakerfi með losunarheimildir(1) (EU ETS) og valkvæða kolefnismarkaði. Á valkvæðum kolefnismörkuðum koma ólíkir markaðsaðilar saman í þeim tilgangi að koma á fót og fjármagna lausnir sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Þá eru verkefni fjármögnuð með sölu kolefniseininga (e. carbon credits, carbon units eða carbon certificates) sem standa einstaklingum, fjárfestum og fyrirtækjum til boða að kaupa. Markaðsaðilar geta þá keypt kolefniseiningar til að fjármagna grænar lausnir, en séu réttu einingarnar valdar geta fyrirtæki notað kolefniseiningar til móts við eigin losun í loftslagsuppgjöri sínu.

Hvað eru kolefniseiningar og hvaða einingar má nota til móts við losun?

Kolefniseiningar jafngilda einu tonni af kolefni (CO2) sem bundið er úr andrúmsloftinu eða einu tonni af CO2 sem er forðað frá því að vera losað út í andrúmsloftið. Enn fremur geta kolefniseiningar samsvarað bindingu eða forðun frá tæknilegum lausnum eða náttúrumiðuðum lausnum.

Aðilar sem hyggjast kaupa kolefniseiningar til að koma til móts við losun í loftslagsuppgjöri sínu þurfa að tryggja að þær einingar sem keyptar eru uppfylli ákveðin skilyrði og hafi þar með raunverulegan loftslagsávinning í för með sér. Í leiðbeiningum um kolefnisjöfnun fyrir opinbera aðila(2) eru sett fram viðmið sem gott er að styðjast við sé ætlunin að kaupa kolefniseiningar til móts við eigin losun. Þar segir að þau kolefnisverkefni sem hafa raunverulegan loftslagsávinning í för með sér uppfylli eftirfarandi skilyrði:

  • Raunverulegur árangur: verkefni fer sannarlega fram og ber tilskilinn árangur.
  • Mælanlegur árangur (e. MRV): unnt er að mæla árangur með viðurkenndum aðferðum.
  • Varanlegur árangur (e. permanence): árangur af verkefni er varanlegur og gengur ekki til baka.
  • Er viðbót (e. additionality): árangur hefði ekki komið til án kaupa á kolefniseiningum.
  • Ráðstafanir til að koma í veg fyrir tvítalningu (e. double counting): árangur af verkefninu er aðeins nýttur einu sinni til kolefnisjöfnunar.
  • Verkefni leiðir ekki til kolefnisleka (e. carbon leakage): árangur byggist ekki á því að losun flytjist annað.
  • Óháð vottun (e. 3rd party validation and verification): óháður vottunaraðili staðfestir árangur af verkefni.

Sé ætlunin að kaupa kolefniseiningar til móts við losun þarf einnig að skoða sérstaklega vel hvenær binding raungerist(3). Til einföldunar leitast kaupendur kolefniseininga oft eftir því að kaupa einingar sem eru vottaðar eftir viðurkenndum staðli, t.d. Skógarkolefni(4), Verified Carbon Standard(5) (Verra) eða PV Nature(6) (Plan Vivo), eða leitast eftir því að kaupa af söluaðila (e. carbon broker) eða af kolefnisskrá (e. carbon registry) sem þau treysta að selja eingöngu kolefniseiningar frá hágæða kolefnisverkefnum.

Valkvæðir kolefnismarkaðir veita markaðsaðilum tækifæri til að fjármagna nauðsynleg verkefni til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og til jöfnunar við eigin losun. Ávallt skal þó hafa í huga að þátttaka á valkvæðum kolefnismörkuðum veitir kaupendum kolefniseininga ekki leyfi til að menga (e. license to pollute). Heldur skal setja aðgerðir sem draga úr losun í forgang og síðan skal styðja við uppbyggingu grænna lausna með kaupum á hágæða kolefniseiningum.

Aðilar á valkvæðum kolefnismörkuðum

Margir aðilar starfa á valkvæðum kolefnismörkuðum. Hér að neðan er hlutverk þeirra helstu útskýrt:

Þróunaraðilar kolefnisverkefna: Einstaklingar, fyrirtæki eða ráðgjafar sem þróa verkefni sem draga úr losun eða binda kolefni úr andrúmsloftinu. Aðilarnir geta komið að verkefninu á ólíkum stigum þess og geta ýmist verið eigendur verkefnisins eða sérhæfð þjónusta.

Fjármögnunaraðilar kolefnisverkefna: Bankar, fjárfestar eða fyrirtæki sem fjárfesta í kolefnisverkefnum eða fjármagna þau með lánveitingum.

Vottunaraðilar: Óháðir aðilar sem votta kolefnisverkefni eftir viðurkenndum stöðlum og tryggja að þau uppfylli skilyrði staðalsins.

Matsfyrirtæki (e. rating agencies): Óháðir aðilar sem meta gæði kolefnisverkefna með það að sjónarmiði að auka trúverðugleika valkvæðra kolefnismarkaða. Matsfyrirtæki meta gæði kolefnisverkefna eftir áhættustigi(7) þeirra, þar sem áhættuminni verkefni fá hærri einkunn en þau áhættumeiri.

Kaupendur kolefniseininga: Einstaklingar, fjárfestar og fyrirtæki sem leitast eftir því að kaupa kolefniseiningar til móts við eigin losun eða til að selja áfram til annarra aðila. Kaupendur geta geymt þær kolefniseiningar sem þau kaupa þar til þau ákveða að nota einingarnar til móts við eigin losun eða selja þær áfram. Sérhverja kolefniseiningu má kaupa og selja oft en eingöngu má nota hana einu sinni til móts við losun þar til hún telst notuð (e. retired).

Kolefnismiðlarar (e. carbon brokers): Sérhæfð þjónusta sem tengir kaupendur við seljendur kolefniseininga.

Kolefnisskrár (e. carbon registries): Rafræn skrá vottaðra kolefnisverkefna og markaðstorg með kolefniseiningar þeirra. Kolefnisskrár halda utan um kaup, sölu og notkun eininga til móts við losun.

(1) 96/2023: Lög um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir | Lög | Alþingi (althingi.is)

(2) Leidbeiningar_kolefnisjofnun_2020.pdf (graenskref.is)

(3) Talað er um ex-post og ex-ante einingar, þar sem ex-post einingar eru þær sem hafa þegar raungerst en ex-ante eru einingar sem raungerast í framtíðinni

(4) https://www.skogarkolefni.is/

(5) https://verra.org/programs/verified-carbon-standard/

(6) https://www.planvivo.org/pv-climate-about

(7) Áhættustig ræðst af þáttum eins og viðbót (e. additionality), mælanleika (e. MRV), ráðstöfunum til að koma í veg fyrir tvítalningu, varanleika árangurs, gagnsæi upplýsingagjafar, o.fl.