Í ljósi þess að nú hefur gengið í garð tímabil aðalfunda vill IcelandSIF leggja sitt á vogarskálarnar með umfjöllun um virkt eignarhald. Fyrst verður birt grein eftir Höllu Kristjánsdóttur, sviðsstjóra eignastýringar LSR og varaformann stjórnar IcelandSIF, um umboðsskyldu og framtíðarsýn sjóðsins sem fjárfestis.
Næstu vikurnar verða birtar fjölbreyttar greinar um þetta efni á heimasíðu IcelandSIF.
Upphaf Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) má rekja allt aftur til 1919. Sjóðurinn er því ríflega 105 ára um þessar mundir. Fyrst um sinn voru eignir sjóðsins aðeins ávaxtaðar í innlánum og með kaupum á skuldabréfum en frá 1997 hefur sjóðurinn fjárfest í hlutabréfum, bæði innanlands og erlendis. Sú þróun hefur kallað á auknar kröfur er varða fjárfestingar sjóðsins.
Framsýni og sjálfbærni í fjárfestingum
Sjóðfélagar LSR greiða að jafnaði í sjóðinn yfir heila starfsævi en taka svo út greiðslur við lífeyristöku. Af þessu leiðir að LSR er langtímafjárfestir og horfir til langs tíma við útfærslu fjárfestingaákvarðana sinna. Virðissköpun, gæði og vöxtur er meðal þess sem skiptir sjóðinn máli en jafnframt er mikilvægt að hugað sé að góðum starfsháttum til lengri tíma litið sem að mati sjóðsins ýtir undir velgengni félaganna og takmarkar áhættu sjóðsins í fjárfestingum. Að sama skapi eru nýsköpun, sjálfbær nýting auðlinda og sjálfbær rekstur félaga þættir sem samræmast þessari löngu sýn sjóðsins og er ætlað að styðja við virðissköpun til lengri tíma litið. Þessir þættir eru að sama skapi mótandi fyrir eigenda- og sjálfbærnistefnu sjóðsins.
Rík umboðsskylda hvílir á sjóðnum vegna eðlis starfseminnar. Sjóðurinn hefur hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi við mótun og framfylgni fjárfestingarstefnu sinnar. Það er trú sjóðsins að til lengri tíma litið sé sjálfbær rekstur og sjálfbær nýting auðlinda grundvallaratriði í fjárhagslegri velgengni félaga í rekstri. Sjóðurinn horfir til ýmissa sjálfbærnitengdra þátta í starfsemi þeirra félaga sem fjárfest er í og heldur á lofti mikilvægi þess að litið sé til þeirra til lengri tíma. Þannig stuðlar sjóðurinn að velgengni sjóðsins, sjóðfélaga og samfélagsins í heild.
Ábyrgar fjárfestingar og virkt samtal við hluthafa
Sjóðurinn leggur áherslu á að vera ábyrgur fjárfestir og eiga virkt og gott samtal við þau félög sem fjárfest er í, með langtímasjónarmiðið að leiðarljósi. LSR hefur sett sér eigendastefnu sem skýrir aðkomu LSR að þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í. Stefnan fjallar m.a. um val á stjórnarmönnum, mat á stjórnarháttum, ráðstöfun atkvæða á hluthafafundum og fleiri atriði sem snúa að hluthafa réttindum, en almennt styður sjóðurinn við tillögur stjórna félaga sem eru frambærilegar, vel rökstuddar og stuðla að langtíma ávinningi hvers félags.
LSR leggur áherslu á að mæta til hluthafafunda og taka þátt í fundarstörfum. Þá gerir eigendastefna sjóðsins ráð fyrir virkri þátttöku sjóðsins í umræðu og afgreiðslu þeirra mála þar sem reynir á beitingu hluthafaréttinda. Á vettvangi sjóðsins er farið gaumgæfilega yfir þær tillögur sem koma fyrir hluthafafundi og tekin afstaða til þeirra. Þá er metið hvort ástæða sé til að sjóðurinn geri sjálfur tillögur til hluthafafunda. Sjóðurinn gerir þá kröfu til stjórna félaga að þær rökstyðji með viðeigandi hætti tillögur sem bornar eru upp við hluthafa og skýri hvernig þær tryggi hagsmuni félagsins og hluthafa til lengri tíma litið.
Áhættumiðuð fjárfestingarstarfsemi getur aukið velsæld sjóðfélaga
Það er hlutverk LSR að greiða sjóðfélögum lífeyri og tryggja þá, maka þeirra og börn fyrir örorku á lífsleiðinni. Sjóðurinn tekur við iðgjöldum sjóðfélaga og ber að ávaxta þau með sem bestum hætti þar til hann þarf að skila þeim aftur, yfirleitt að löngum tíma liðnum. Það er mikilvægt þegar fjárfest er til langs tíma að þau félög sem fjárfest er í séu vel rekin, bæti rekstur sinn stöðugt yfir fjárfestingar tímann og stuðli að bæði eigin ábata og samfélagsins með sjálfbærum rekstri. Með þeim hætti getur áhættumiðuð fjárfestingarstarfsemi lífeyrissjóða stuðlað að aukinni velsæld sjóðfélaga sinna.
Höfundur er sviðsstjóri eignastýringar LSR og varaformaður stjórnar IcelandSIF