Þann 5. desember síðastliðinn hélt IcelandSIF viðburð sem bar heitið „Nýjar rannsóknir um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar.” Þar stigu á stokk þrír doktorsnemar sem rannsaka nú málaflokk ábyrgra fjárfestinga frá ólíkum sjónarhornum. Fundurinn var rafrænn.
Þátttakendur fundarins voru eftirfarandi:
Þráinn Halldór Halldórsson, stjórnarmeðlimur IcelandSIF, stýrði fundinum.
Hér að neðan má lesa samantekt á því helsta sem kom fram:
Stefnutæki ábyrgra fjárfestinga
Björg Jónsdóttir kynnti rannsókn sína sem tekur mið af þeim ólíku stefnutækjum sem standa til boða til að stuðla að innleiðingu ábyrgra fjárfestinga. Björg kannaði stefnutæki í alls 31 landi. Í rannsókninni eru stefnutækin flokkuð í þrjá aðalflokka: 1) Stefnutæki stjórnvalda, 2) stefnutæki til að innleiða sjálfbærni (UFS), 3) og markaðsdrifna stefnu. Stefnutæki stjórnvalda fela í sér lög og reglugerðir, hagræn tæki eins og skattaívilnanir, upplýsingamiðlun og fræðslu og samvinnu við hagaðila. Í flokki tvö, innleiðingu á sjálfbærni (UFS), eru stefnutæki flokkuð sem skyldubundin, hálf-skyldubundin eða byggð á hvötum. Markaðsdrifin stefna, þriðji flokkurinn, byggir hins vegar á fyrirtækjameðvitund, væntingum fjárfesta og áherslum neytenda.
Rannsóknin greindi mismunandi árangur landa í innleiðingu ábyrgra fjárfestinga eftir mismunandi stefnutækjum. Lönd með takmarkaðar ábyrgar fjárfestingar (e. marginal) nota yfirleitt eingöngu hvata en lítið sem ekkert af lagasetningu – og þar er áhersla á fræðslu og samstarf við hagaðila. Lönd á uppleið (e. progressing) nota sambland hálf-skyldubundinna stefnutækja, hvata og skattaívilnana, sem eykur árangur og upptöku fjárfestinga. Lönd sem eru leiðandi í ábyrgum fjárfestingum hafa skýrt regluverk ásamt því að nýta fjölþætta nálgun með skyldubundnum aðgerðum, hvötum og skattaívilnunum, sem stuðlar að víðtækri upptöku ábyrgra fjárfestinga. Með öðrum orðum blanda þau fyrrgreindum þrem flokkum stefnutækja saman.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að skyldubundin stefnutæki skili góðum árangri. Mestur árangur felst hins vegar í því að nota samsetningu úr flokkunum þrem, þ.e. hálf-skyldubundnar aðgerðir, hvatar og skattalegar ívilnanir. Skilar það víðtækari aukningu á ábyrgum fjárfestingum. Það sem stingur í stúf er að lönd líkt og Finnland og Ítalía, sem nota fyrst og fremst hvata, hafa hins vegar náð umtalsverðum framförum. Á sama tíma sýna gögn að lönd með litla framsetningu eru oft takmörkuð í árangri.
Rannsóknin er takmörkuð að því leyti að gögn fengust aðeins frá 16 löndum af þeim 31 sem skoðuð voru. Engu að síður gefur hún mikilvægar vísbendingar um tengsl stefnutækja við árangur í ábyrgum fjárfestingum og undirstrikar gildi þess að samræma fræðslu, samstarf og regluverk til að stuðla að farsælli innleiðingu ábyrgra fjárfestinga.
Kolefnisföngun, geymsla og förgun
Bára A. Alexandersdóttir, doktorsnemi við lögfræðideild Háskólans í Reykjavík, fjallaði um regluverk sem varðar kolefnisföngun, geymslu og förgun (CCS og CDR) á Íslandi. Markmið þessara aðgerða er að draga úr heildarmagni koltvísýrings í andrúmsloftinu til að stuðla að því að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C. Þó dregið sé úr losun er ljóst að það þarf einnig að hreinsa koltvísýring í stórum stíl til að ná loftslagsmarkmiðum.
Rannsókn Báru miðar að því að greina hvernig verkefni á sviði kolefnisföngunar falla að íslenskum lögum og stjórnsýslu. Hún skoðar bil milli núverandi lagaumhverfis og nýrrar atvinnugreinar og hvernig hægt er að útrýma óþarfa hindrunum, svo sem lagalega óvissu hér heima og erlendis. Mismunandi tegundir verkefna krefjast ólíkrar leyfisveitingar og eftirlits, sem kallar á skýran lagaramma til að meta kosti og gallar hverrar aðferðar. Að lokum getur Ísland með skýrari stefnumörkum lagt sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvána á heimsvísu.
Ísland hefur sett sér metnaðarfullt markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040 og samdrátt í nettólosun á 55% fyrir 2030 í samræmi við skuldbindingar ESB. Landfræðileg staða landsins býður upp á tækifæri til að sýna fordæmi á alþjóðavettvangi með nýtingu náttúrulegra skilyrða til kolefnisföngunar og geymslu. Verkefnið CarbFix er gott dæmi um þetta og hefur hlotið stærsta styrk sem íslenskt fyrirtæki hefur fengið frá ESB.
Kolefnisföngun og förgun eru umdeildar aðgerðir. Bára benti á að þær væru hluti af heildstæðri nálgun í loftslagsmálum og koma ekki í stað þess að draga úr losun. Með skýru og vel skilgreindu lagaumhverfi og leyfisveitingaferli er hægt að stuðla að upplýstum ákvörðunum um þróun þessarar atvinnugreinar og nýta hana í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ísland gæti þar orðið einstakt fordæmi á alþjóðavísu.
Upplýsingaójafnvægi á grænum skuldabréfamarkaði og hlutverk annarra skoðunaraðila (SPOs)
Í erindi sínu fjallaði Jordan Mitchell um hlutverk annarra aðila (e. Second-Party Opinion Providers, SPOs) í mati á sjálfbærni á markaði fyrir græn og sjálfbær skuldabréf. Þessi aðilar gegna lykilhlutverki við að draga úr upplýsingaskekkjum milli útgefenda og fjárfesta með því að veita faglegt mat á sjálfbærniviðmiðum og rammafjármögnun. Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig SPO-aðilar hjálpa til við að takast á við þessar áskoranir og stuðla að gagnsæi og trausti á markaðnum fyrir græn og sjálfbær skuldabréf (GSS+). Með því að framkvæma óháðar úttektir á sjálfbærni- og grænum ramma skuldabréfaútgefenda stuðla SPO-aðilar að auknu trausti fjárfesta og gagnsæi á markaðnum.
Eitt helst verkefni SPO-aðila er að takast á við upplýsingaskekkjur sem eiga sér stað milli fjárfesta, útgefenda og þeirra sjálfra. Við mat sitt standa SPO-aðilar frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum, þar á meðal sérhæfðum matsferlum sem krefjast samanburðar á gögnum úr ólíkum atvinnugreinum, lykilmælikvörðum (KPIs) og aðgengi að viðbótargögnum. Innan skipulags útgefenda koma einnig fram vandamál eins og ófullnægjandi fjármálarammar, skortur á gögnum og takmarkaðri tæknilegri eða umhverfislegri þekkingu. Þessir þættir, ásamt þekkingargloppum milli deilda innan útgefendanna sjálfra, gera SPO-ferlið krefjandi.
Samræmi markmiða milli SPO-aðila og útgefenda reynist einnig flókin. Skortur á metnaði í sjálfbærnimarkmiðum útgefanda, stutt tímamörk og ófullnægjandi gagnsæi eru dæmi um áskoranir, auk þess sem SPO-aðilar koma oft seint að ferlinu sem takmarkar möguleikann á að laga veikleika í ramma útgefenda. Jafnframt geta græn skuldabréf stuðlað að jákvæðum áhrifum á sum sjálfbærnimarkmið (SDG) en valdið neikvæðum áhrifum á önnur sem eykur flækjustigið.
Áhætta fylgir þessum ferlum einnig, sérstaklega orðsporsáhætta vegna grænþvottar, auk lagalegrar áhættu, þar sem fjárfestar gætu höfðað mál ef ákvarðanir þeirra byggja á villandi upplýsingum frá SPO-aðilum. Skortur á alþjóðlegum stöðlum gerir þessi verkefni enn flóknari, en nýlegar reglur Evrópusambandsins, svo sem flokkunarreglukerfið (e. EU taxonomy) og græni fjármögnunarramminn (e. EU green deal), eru taldar veita nauðsynlegan ramma til að auka áreiðanleika og draga úr upplýsingaskekkjum. Þrátt fyrir að ferlið við innleiðingu þessara reglna sé flókið og krefjandi eru þær mikilvæg skref í átt að skýrari og stöðugri markaði.
Í heild sinni gegna SPO-aðilar mikilvægu hlutverki í því að skapa traust og gagnsæi á grænum skuldabréfamarkaði. Þeir starfa sem brú milli fjárfeta og útgefenda og stuðla að því að efla sjálfbæran fjármálamarkað. Með aukinni stöðlun og þróuðu regluverki er hægt að stuðla að stöðugleika og vexti á markaði.
Hér að neðan má finna upptöku af viðburðinum: