IcelandSIF stóð fyrir viðburði um blandaða fjármögnun (e. Blended Finance) með samtökunum IMCA (Investment Mobilisation Collaboration Alliance) þann 13. janúar síðastliðinn í samstarfi við Utanríkisráðuneytið og Íslandsstofu. Viðburðurinn var haldinn í húsnæði Landsbankans við Reykjastræti og voru flytjendur þau Dewi Dylander frá IMCA, (e. Senior Director at IMCA), og Jesper H. Andersen, aðalráðgjafi í deild grænna ríkjasamskipta (e. Chief Consultant at the Department of Green Diplomacy) hjá danska Utanríkisráðuneytinu.
Sjá glærur frá fundinum hér.
Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, ávarpaði fundargesti fyrir hönd ráðuneytisstjóra, Martins Eyjólfssonar. Hún talaði um þörfina á fjármögnun í baráttunni við loftslagsbreytingar og fjallaði um síðustu loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna, COP29, og inngöngu Íslands í IMCA samtökin í kjölfarið. Helsta markmið IMCA er að auka fjárfestingar til þróunarríkja sem fjármagna mótvægisaðgerðir vegna loftslagsbreytinga og styðja við sjálfbæra þróun.
Jesper Andersen fjallaði svo frekar um hugmyndafræði IMCA, sem byggir á því að virkja þátttöku einkageirans í að fjármagna loftslagsbaráttu þróunarríkjanna. Jafnframt fjallaði Jesper um samkomulag sem náðist á síðustu loftslagsráðstefnu er varðar fjármögnun til loftslagsaðgerða í þróunarríkjunum. Hann lagði ríka áherslu á að það fjármagn sem samið hefði verið um væri talsvert undir því sem þörf væri á til að fjármagna nauðsynlegar mótvægis- og aðlögunaraðgerðir. Áætluð upphæð sem þörf væri á, væri í kringum 1.300 milljarða dollara á ári en samkomulagið hljóðaði aðeins upp á 300 milljarða dollara fjármögnun á ári.
Því næst fjallaði Jesper um blandaða fjármögnun sem rótgróna leið til að minnka áhættu einkafjármagns til fjárfestinga í þróunarríkjum, þar sem ríkisframlag tryggir fjárfesta fyrir mögulegu upphaflegu tapi (e. first loss). Með þessari leið skapast því frekari hvati fyrir fjárfesta til að koma að borðinu, áhættan er minni og ávöxtunin verður samkeppnishæfari og fjárfestingin er um leið að styðja við aðgerðir sem draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga í þróunarríkjunum.
Jesper fjallaði jafnframt um það að Danir hafa notað stofnun um fjármögnun þróunaraðstoðar (d. Investeringsfonden for Udviklingslande eða IFU) með góðum árangri síðan árið 1967. Jesper nefndi sjóðinn SDG Fund I sem dæmi, þar sem sex danskir lífeyrissjóðir tóku þátt. Fjórir þeirra ákváðu að auka grænar fjárfestingar sínar með þátttöku í sjóðnum SDG Fund II, sem er nú opinn og er í fjármögnunarferli. Markmið IMCA er m.a. að byggja á sambærilegu líkani Dana með IFU til þess að fá Norðurlöndin til þess að taka virkari þátt í slíkum verkefnum.
Jesper lýsti vaxandi þrýstingi frá félagsmönnum danskra lífeyrissjóða um að forgangsraða sjálfbærum fjárfestingum og að þessi þrýstingur hefði jafnframt verið innblásturinn að SDG sjóðunum. Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi góðs samstarfs við félögin og aðila verkefna sem fjárfest er í og að nauðsynlegt sé að tryggja gott samstarf á milli einkageirans og hins opinbera svo að hægt sé að mæta frekar þörfum þróunarríkja.
Dewi Dylander fjallaði um stofnun IMCA á COP28 árið 2023 og fór yfir skipulagsheild samtakanna þar sem koma að aðildarríki, ráðgjafanefnd eiganda (e. Asset Owner Advisory Panel eða AOAP) ásamt stefnumótunarnefnd samtakanna. Líkt og áður kom fram gerðist Ísland aðili að samtökunum á síðasta ári eða á COP29 en auk Íslands eru það Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Bandaríkin sem eru aðilar samtakanna í dag.
Dewi fjallaði einnig um þær fjárfestingaleiðir sem eru komnar af stað í ferli í dag (e. Investment pipelines), og nefndi hún þar eftirfarandi verkefni: Blended Finance for Energy Transition (BEFT), Adaptation Finance Window (AFW) og Greening Value Chains in Africa (GVCA).
Varðandi fjármögnun IMCA samtakanna, þá greindi Dewi frá því að samtökin hefðu árið 2023 hlotið þriggja ára styrk frá danska Utanríkisráðuneytinu. Hún lagði áherslu á skuldbindingu IMCA um að styðja við samstarf einkageirans og hins opinbera til að knýja áfram sjálfbæra þróun með skipulögðum hætti í gegnum áhrifamiklar fjárfestingar.
Sjá myndir frá viðburðinum hér að neðan.