Morgunfundur um flokkunarreglugerð Evrópusambandsins

2/12/2020

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) í samstarfi við í Fjármála- og efnahagsráðuneytið, LOGOS og KPMG, um flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (EU Taxonomy) þann 2. desember 2020. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF og yfir 60 manns tengdust inn á fundinn.

Erindi fluttu Guðmundur Kári Kárason lögfræðingur hjá skrifstofu fjármálamarkaðar í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður og eigandi hjá LOGOS, Arnar Sveinn Harðarson lögfræðingur hjá LOGOS og Benoit Cheron sérfræðingur á ráðgjafasviði KPMG. Fundarstjóri var Kristbjörg M. Kristinsdóttir, varaformaður stjórnar IcelandSIF og fjármálastjóri Stefnis.

Guðmundur Kári Kárason fór í erindi sínu yfir stöðu á innleiðingu flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins og tengds regluverks á Íslandi. Hann fjallaði m.a. um aðgerðaráætlun fyrir fjármögnun sjálfbærs vaxtar sem samþykkt var hjá ESB árið 2019 en hluti af þessari áætlun er flokkunarreglugerð ESB sem samþykkt var í júní 2020. Hún tekur gildi í áföngum og gert er ráð fyrir að flokkunarkerfið í heild sinni taki gildi hjá ESB í janúar 2022. Gert er ráð fyrir að upptaka í EES samning og innleiðing í íslenskan rétt muni eiga sér stað í áföngum og vonir standa til að heildarreglugerðin geti tekið gildi á Íslandi í byrjun árs 2022. Guðmundur fór jafnframt yfir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs, sem byggir m.a. á aðgerðaráætlun í loftslags­málum til 2030.

Helga Melkorka Óttarsdóttir og Arnar Sveinn Harðarson fjölluðu um grundvallaratriði flokkunar­kerfisins, skilgreiningu á umhverfissjálfbærri (grænni) atvinnu­starfsemi og þær kröfur sem gerðar eru til upplýsingagjafar. Helga fjallaði um skuldbindingar ESB í loftslagsmálum og áherslu á umhverfissjálfbærni. Við mat á umhverfissjálfbærni fyrirtækja verður stuðst við ákveðin skilyrði sem skilgreind verða innan ólíkra atvinnugreina. Atvinnustarfssemi þarf m.a. að styðja verulega við eitt eða fleiri af tilteknum umhverfis­markmiðum, má ekki valda umtalsverðu tjóni á öðrum umhverfis­markmiðum og þarf að samræmast lágmarkskröfum og viðmiðunarreglum. Arnar Sveinn fór yfir gildissvið flokkunar­reglugerðarinnar, en ESB/EES og aðildarríkin eru bundin af því að nota flokkunarkerfið í aðgerðum á sviði sjálfbærra fjármála. Reglugerðin felur líka í sér upplýsingaskyldu fyrir aðila á fjármálamarkaði, m.a. upplýsingagjöf um það hvernig og að hve miklu leyti fjárfesting styður við umhverfismarkmið. Lykilatriði reglugerðarinnar er gagnsæi og að samræma mat og tölulegar upplýsingar um sjálfbærni. Markmiðið er m.a. að fjárfestar eigi auðveldara með að meta sjálfbærni fjármálagerninga ásamt því að að beina flæði fjármagns til umhverfissjálfbærra fjárfestinga.

Benoit Cheron fór yfir raunhæf dæmi um það hvernig flokkunarreglugerð ESB hefur þegar verið tekin inn í starfsemi fyrirtækja í mismunandi löndum. Benoit var með þrjá erlenda viðmælendur frá KPMG í Evrópu, Riika Sievanen frá Finnlandi, Julie Castiaux frá Lúxemborg og Blandine Machabert frá Frakklandi, en þær eru allar sérfræðingar á sviði ábyrgra fjárfestinga hjá KPMG. Farið var yfir stöðuna og þróunina í þessum þremur löndum, Finnlandi, Lúxemborg og Frakklandi. Sammerkt var með þessum löndum að eftirlitsaðilar og fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum eru nú að aðlaga sig að þeim breytingum sem framundan eru til að hægt sé að veita viðeigandi upplýsinga­gjöf og í samræmi við flokkunarreglugerð ESB. Þá hafa aðilar á fjármálamarkaði jafnframt þegar hafið undirbúning að þessum breytingum en ljóst er að talsverð vinna og þróun er framundan á næstu misserum þar sem ein helsta áskorunin mun snúa að gagnaöflun og samræmdri upplýsingagjöf.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Kynningar Guðmundar Kára.pdf

Kynning Helgu Melkorku og Arnars Sveins.pdf