Kolefnismarkaðir - áhættur og tækifæri fyrir fjárfesta - Upptaka, samantekt og myndir

11/11/2024

Þann 30. október hélt IcelandSIF morgunfund sem bar yfirskriftina “Kolefnismarkaðir - áhættur og tækifæri fyrir fjárfesta.” Valkvæðir kolefnismarkaðir fara vaxandi í umfangi sem felur í sér bæði áhættur og tækifæri fyrir fjárfesta til framtíðar. Nauðsynlegt er að draga þessi atriði upp á yfirborðið til frekari umræðu og greiningar svo hægt sé að átta sig á mögulegum fjárhagslegum áhrifum á eignasöfn fjárfesta.

Þátttakendur fundarins voru eftirfarandi:

  • Óli Torfason, COO hjá International Carbon Registry, fjallaði um kolefnismarkaði ásamt þeim áhættum og tækifærum sem þeim tengjast.
  • Aðalheiður Snæbjarnardóttir, forstöðumaður sjálfbærni hjá Landsbankanum, fór yfir reynslu Landsbankans af kolefnisjöfnun.
  • Jónas R. Gunnarsson, forstöðumaður sjóðastýringar hjá Kviku Eignastýringu, fjallaði um tækifæri í kolefnismörkuðum fyrir fjárfesta.

Þráinn Halldór Halldórsson, stjórnarmeðlimur IcelandSIF, stýrði fundinum.

Hér að neðan má lesa samantekt á því helsta sem kom fram:

Kolefniseiningar

Fundurinn byrjaði á erindi Óla Torfasonar frá International Carbon Registry (ICR). Hann fór yfir skilgreiningar á kolefniseiningum, en það er hægt er að skipta tegundum kolefniseininga í tvennt: annars vegar vegna bindingu kolefnis, t.d. með skógrækt, og annars vegar þegar komið er í veg fyrir losun (e. avoidance), t.d. með því að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Almennt er talað er um að ein kolefniseining jafngildi einu tonni af kolefni.

Í dag eru um 170 leiðir til að binda kolefni eða koma í veg fyrir losun og þeim fer fjölgandi, en þessi fjöldi tegunda verkefna myndar ákveðið flækjustig þar sem það getur reynst erfitt fyrir einstaka aðila að rýna og velja á milli verkefna. Óli benti á að hlutverk fjármálafyrirtækja færi stækkandi og að það væru tækifæri fyrir þau að taka þátt og skilgreina betur markaðinn fyrir einingar og verkefni. Hann kom inn á verðlagningu á kolefniseiningum, mismun á gæðum verkefna og hlutverki matsaðila við einkunnagjöf á verkefnum, en einkunnagjöfin getur aukið samanburðarhæfni fyrir kaupendur eininga.

Það ríkti samhljómur meðal viðmælanda um að í framtíðinni verði líklega hægt að kaupa kolefniseiningar í þar til gerðum sjóðum, álíka þeim sem við þekkjum í dag fyrir hefðbundna fjármálagerninga, og þá verði áhættunni dreift yfir mismunandi verkefni og vinnuálagið sem felst í meta hvert og eitt verkefni því lágmarkað. Þar mun fjármálageirinn líklega þurfa að stíga inn í.

Vegferð Landsbankans í kolefnisjöfnun

Aðalheiður Snæbjarnardóttir fór yfir reynslu Landsbankans af kolefnisjöfnun. Hún lagði áherslu á hvað þessi heimur hefur þróast hratt á stuttum tíma. Landsbankinn byrjaði að kolefnisjafna rekstur sinn fyrst árið 2011 með einingum frá Kolviði. Hins vegar varð ákveðin vitundavakning í lok árs 2019 þegar í ljós kom að bindingin vegna eininga frá Kolviðimyndi ekki eiga sér stað fyrr en eftir einhver ár. Fram til þessa höfðu fyrirtæki almennt ekki hugsað til þess hvort binding hafði nú þegar átt sér stað eða ekki, en þetta leiddi til þess að Landsbankinn endurskoðaði og uppfærði aðferðafræði sína við kolefnisjöfnun og skipti yfir í aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol (GHG) til að reikna út loftslagsbókhaldið sitt.

Í dag kolefnisjafnar Landsbankinn losun frá rekstri bankans og er með CarbonNeutral® vottun. Þau tryggja að styðja eingöngu alþjóðlega vottuð verkefni með vottaðar kolefniseiningar þar sem binding hefur þegar átt sér stað og að einingarnar séu samþykktar af ICROA.

Mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir því að 99% af heildarlosun Landsbankans er vegna lánasafns bankans. Sú losun er ekki kolefnisjöfnuð. Hér lagði Aðalheiður áherslu á að lausnin er ekki að kolefnisjafna, heldur að ná samdrætti í losun. Þar vill Landsbankinn vera fyrirmynd fyrir aðra og fá þannig fleiri til liðs með sér í þessari vegferð.

Tækifæri á kolefnismörkuðum

Jónas R Gunnarsson hjá Kviku Eignastýringu vakti athygli á þeim tækifærum sem felast í kolefnismörkuðum fyrir fjárfesta og sömuleiðis tækifærum fjárfesta til að byggja upp valkvæða kolefnismarkaði. Kolefnismarkaður er vítt og flókið hugtak sem nær bæði yfir lögbundna og valkvæða kolefnismarkaði. Jónas lagði áherslu á að það skiptir máli að fræðsla og upplýsingagjöf út á við sé vönduð. Í grunninn er kolefniseining bara ein birtingarmynd af kolefnismörkuðum. Varan getur verið kolefniseining en getur þess vegna verið bein fjármögnun verkefna sem vinna að því að binda eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda . Þá væri hægt að þróa sérhæfða sjóði með slíkum fjármálagerningum.

Kvika Eignastýring hóf vinnu við að búa til fjárfestingarvöru sem tengdist valkvæðum kolefnismörkuðum fyrir u.þ.b. þremur árum. Rætt var við fjölda aðila til að afla þekkingar, m.a. fyrirtæki, opinberar stofnanir, háskóla og aðra sérfræðinga um valkvæða kolefnismarkaði. Ferlið var lærdómsríkt og þá allra helst að því leyti að markaðurinn var þá ekki orðinn jafn þroskaður og þau héldu. Regluverkið var á fleygiferð og neikvæð umræða áberandi og er enn.

Til þess að geta þróað markaðinn betur og gefið út vörur eru ákveðin atriði sem þurfa að vera til staðar fyrir fjárfesta. Það vantar meiri stöðugleika í lögum og reglugerðum. Það þarf einnig að byggja upp traust og stuðla að gagnsæi, sérstaklega með tilliti til stjórnarhátta, aðgengi gagna og gagnsæi vottunarferlisins. Jafnframt þarf að tryggja aðgengi að virkum mörkuðum t.d. rafrænum kolefnisskrám. Þörf er á að auka markvisst fræðslu og upplýsingagjöf til að byggja upp meiri trúverðugleika og þannig koma til móts við þá neikvæðu umræðu sem hefur verið viðloðandi valkvæðum kolefnismörkuðum undanfarin ár. Síðast en ekki síst þarf að tryggja fjármagn bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum, en það mun fylgja þegar bætt hefur verið úr ofangreindum þáttum.

Þessi markaður á aðeins eftir að stækka. Jónas tók undir umræðu Óla og sagði að þar sem markaðurinn er fjölbreyttur eru tækifæti til að dreifa áhættunni og ekki festast í einni tiltekinni lausn.

Mikilvæg er að auka gagnsæi og draga þarf úr óvissu

Heilt yfir er greinilegt að það er ákveðin óvissa á valkvæðum mörkuðum út frá lagalegum sjónarmiðum en eins og staðan er í dag þá skiptir gagnsæi, upplýsingagjöf, gæði verkefna og vottun miklu máli. Allir viðmælendur komu inn á tækifærin bæði fyrir kaupendur og seljendur eininga, en fjármálafyrirtæki geta gegnt mikilvægu hlutverki með því að stuðla að áhættudreifingu ásamt því að tryggja fjármögnun verkefna.

Hér má nálgast glærur frá fundinum

Hér að neðan má finna upptöku og myndir af viðburðinum: