Kolefnismarkaðir - áhættur og tækifæri fyrir fjárfesta

14/10/2024

IcelandSIF stendur fyrir morgunfundi sem haldinn verður miðvikudaginn 30. október klukkan 09:00.

Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum Landsbankans og boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar frá kl. 8:30.

Mörg fyrirtæki leitast við að kaupa vottaðar kolefniseiningar í gegnum kolefnisjöfnunarferli til þess að koma til móts við losun sína með það að sjónarmiði að lækka kolefnisfótspor sitt. Þau þurfa þá að huga að staðsetningu, tegund og gæðum kolefnisverkefna m.t.t. markmiða sinna. 

Umræða hefur skapast á Íslandi undanfarin misseri sem varpar ljósi á að flækjustig valkvæða kolefnismarkaðsins er hátt. Deilt er um hver raunveruleg áhrif vissra kolefnisjöfnunaraðgerða er samanborið við aðgerðir sem raunverulega draga úr losun fyrirtækja. Einnig er mikilvægt að tryggja að verkefni sem bindur eða dregur úr losun kolefnis á annan hátt hafi ekki veruleg neikvæð áhrif á aðra þætti líkt og líffræðilegan fjölbreytileika eða mannabyggðir. 

Fjárfestar eru útsettir fyrir áhættum í tengslum við valkvæða kolefnismarkaðinn, t.a.m. í gegnum fjármagnaða losun vegna félaga sem jafna losun sína með kaupum á kolefniseiningum. Einnig eru tækifæri á markaðnum m.t.t. fjárfestinga í kolefnisjöfnunarverkefnum. Nauðsynlegt er að fjárfestar átti sig á mikilvægi þess að kolefnisverkefni séu framkvæmd með gagnsæi og trúverðugleika að leiðarljósi, ásamt því að gera greinarmun á raunáhrifum kolefnisjöfnunar samanborið við aðgerðir sem draga úr losun. 

Erindi fundarins verða eftirfarandi:

Óli Torfason, COO hjá International Carbon Registry, fjallar um kolefnismarkaði ásamt þeim áhættum og tækifærum sem þeim tengjast.

Aðalheiður Snæbjarnardóttir, forstöðumaður sjálfbærni hjá Landsbankanum, fer yfir reynslu Landsbankans af kolefnisjöfnun.

Jónas R. Gunnarsson, forstöðumaður sjóðastýringar hjá Kviku Eignastýringu, fjallar um tækifæri í kolefnismörkuðum fyrir fjárfesta.

Að fundi loknum gefst gestum kostur á að spyrja spurninga.

Fundurinn er opinn fyrir aðildarfélög IcelandSIF.

Hægt er að skrá sig á fundinn með því að smella hér.