Breytt framtíðarsýn? - Áhrif Omnibus-tillaga ESB á sjálfbær fjármál. Samantekt, upptaka og glærur

11/04/2025

IcelandSIF hélt fjarfund þann 26. mars sl. með yfirskriftinni Breytt framtíðarsýn – áhrif Omnibus tillaga ESB á sjálfbær fjármál. Fundurinn var vel sóttur.

Fundarstjóri var Eva Margrét Ævarsdóttir formaður lögfræðihóps IcelandSIF. Hún kynnti að leitað hafi verið upplýsinga hjá stjórnvöldum og EFTA um hvort og hvernig yrði staðið að innleiðingu reglnanna í ljósi Omnibus tillagnanna og þess að CSRD hefur ekki verið tekið upp í EES samninginn og ekki verið innleidd hér á landi. Samkvæmt ráðuneytinu er vel fylgst með málinu og líklegt að Omnibus tillögurnar tefji innleiðingu CSRD hér á landi. Skilaboð ársreikningaskrár Skattsins voru að fyrirtæki þurfa að hlíta lögunum hér á landi eins og þau eru á hverjum tíma. Því gildi 66. gr. d. ársreikningalaga og lög nr. 25/2023 (flokkunarkerfið) þar til lagabreytingar hafa verið samþykktar.

Simon Brennan, forstöðumaður miðstöðvar um sjálfbærniregluverkið (Deloitte EMEA), var með mjög áhugaverða yfirferð yfir Omnibus tillögurnar, samantekt yfir tilgang þeirra og áætlaða tímalínu varðandi innleiðingu. Hann útskýrði að um tvær breytingartilskipanir væri að ræða sem væri ætlað að einfalda regluverkið og auka samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja. Annars vegar drög að tilskipun um frestun á innleiðingu regluverksins („Stop the Clock“) og hins vegar drög að tilskipun sem breytir CSRD og CSDDD efnislega. Breytingartillögur vegna CSRD fela í sér að fyrirtækjum sem falla undir löggjöfina fækki, upplýsingagjöf fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki verði valkvæð og skýrsluskil verði einfölduð. Breytingar á CSDDD felast einkum í hversu langt í aðfangakeðjuna fyrirtæki þurfa að líta, þ.e. aðeins til eigin viðsemjenda. Viðmið fyrir hvaða fyrirtæki falli undir Taxonomy verða þrengd þannig að aðeins stærstu fyrirtækin sem falla undir CSDR þurfa að veita upplýsingar á grundvelli Taxonomy.

Sjá glærur hér.

Tómas N Möller, yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, fjallaði um áhrif Omnibus tillaganna fyrir íslenska fjárfesta. Tómas lagði áherslu á að sjálfbærni verði áfram mikilvæg. Fjárfestar þurfa áfram að greina sjálfbærniáhættu og tækifæri í eignasöfnum. SFDR mun áfram gilda fyrir stofnanafjárfesta sem þurfa upplýsingar sem veittar eru á grundvelli CSRD, CSDDD og Taxonomy þótt þær verði takmarkaðri og þá þarf að byggja á öðrum gagnagrunnum. Tómas veitti svo áhugaverða innsýn í samsetningu eigna Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, þá áskorun að afla sjálfbærni upplýsinga, ekki bara loftslagsupplýsingar, fyrir eignasafnið og nefndi helstu gagnaveitur sem eru notaðar til að meta sjálfbærniáhættu. Að lokum nefndi hann hugsanlega valkosti fyrir minni félög, t.d. valkvæða staðla fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki (VSME).

Sjá glærur hér.

Helena Guðjónsdóttir, deildarstjóri viðskiptaþróunar og sjálfbærni hjá Íslandssjóðum fjallaði um mögulega þýðingu breytinganna hér á landi. Jákvætt að endurskoða umgjörðina ef við töpum ekki markmiðinu. Af samtölum við erlenda fjárfesta má ráða að margir hverjir lýsa yfir verulegum áhyggjum en taka undir að það megi einfalda flækjustig regluverksins. Stöðluð upplýsingagjöf er mjög mikilvæg fyrir fjárfesta en fyrirséð að breytingar hafi í för með sér gagnavandamál og aukna vinnu við öflun gagna. Ófjárhagsleg gögn verða áfram notuð við áhættustýringu og sem hluti af fjárfestingarferlum og að lokum minnti Helena okkur á að loftslagsvá og loftslagsáhætta hverfa ekki þrátt fyrir Omnibus.

Sjá glærur hér.

Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála Creditinfo Group, lýsti vegferð Creditinfo sem var hafin áður en Omnibus tillögurnar voru lagðar fram varðandi að bæta upplýsingagjöf á grundvelli ESRS staðlanna í gagnakerfi Veru. Verði Omnibus tillögurnar samþykktar er fyrirséð að gagnaaðgengi verður breytt. Það getur þess vegna myndast bil þar sem þörfin fyrir sjálfbærniupplýsingar helst ekki í hendur við skyldu til upplýsingagjafar skv. Evrópulöggjöfinni. Reynir nefndi að hann sæi fyrir sér að leiðbeiningar um valkvæða upplýsingagjöf fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki yrði mikið notuð.

Sjá glærur hér.