Háskólanemar í viðskiptasiðfræði rýna ESG

14/11/2019

Þetta og sitthvað fleira áhugavert bar á góma í ráðstefnusal Veraldar, húss Vigdísar, að morgni mánudags 7. október þegar meistaraprófsnemar í viðskiptasiðfræði í Háskóla Íslands kynntu verkefni sem þeir unnu að í samstarfi við IcelandSIF og varða ábyrgar fjárfestingar. Egill Tryggvason, stjórnarmaður í IcelandSIF og formaður vinnuhóps skipulagði samkomuna og Þröstur Ólafur Sigurjónsson stýrði fundi. Þröstur er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og umsjónarmaður meistaranámskeiðs í viðskiptasiðfræði.

Fimm hópar greindu frá verkefnum sínum og niðurstöðum. Tveir fjölluðu um grænna skuldabréfútgáfu, aðrir tveir um ófjárhagslegar upplýsingar og UFS (e.ESG)-hugmyndafræðina (Umhverfi-Félagslegir þættir og Stjórnarþættir) Í fimmta lagi var fjallað um áskoranir Landsbankans eftir efnahagshrunið við uppbyggingu trausts og mat greiningaraðila á .

Grænar fjárfestingar, græn ríkisskuldabréf

Hópur nr. 1 bar saman og spáði í „græna lánastarfsemi“ fjögurra banka í Danmörku, Englandi og Svíþjóð. Af þeim töldu framsögumenn að Danske bank væri lengst komin á grænu lánabrautinni, með metnaðarfull markmið um hvernig kröftum þessa fjármálafyrirtækis yrði beitt í samræmi við alheimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál og umhverfi.

Danske bank gaf í mars 2019 út fyrstu grænu skuldabréfin með veð á móti grænum lánum.. Bréfin voru skráð í kauphöll í Dublin og spurn eftir þeim var veruleg frá upphafi.

Í anda hugmyndafræðinnar býðst viðskiptavinum grænt lán á betri kjörum en ella gegn því að sýna fram á að fjármununum verði varið í verkefni sem bæta umhverfið. Þetta geta verið vistvænar samgöngur, endurnýjanlegir orkugjafar, flutningastarfsemi, umhverfisvænar húsbyggingar, sjálfbær nýting orkulinda, ráðstafanir til að draga úr mengun, upplýsingatækni tengd loftlagsbreytingum og fleira slíkt.

Nefnd voru dæmi erlendis frá um kjörin á grænu lánunum, 10 punkta afslátt vegna umhverfisvottaðs húsnæðis og 100 punkta afslátt af lánum við kaup á umhverfisvænum bílum.

Hér heima fór Byggðastofnun vorið 2019 að bjóða græn lán til grænna verkefna á landsbyggðinni með allt að 100 punkta afslætti.

Hópur nr. 4 komst að þeirri niðurstöðu að græn ríkisskuldabréf gætu út af fyrir sig verið góður kostur fyrir íslenska ríkið og fram kom að Seðlabankinn hefur fylgst vel með alþjóðlegri þróun mála á þessu sviði. Nú sem stendur væri græn skuldabréfaútgáfa þó ekki á dagskrá, enda lánsfjárþörf ríkissjóðs lítil.

Fram kom að bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hefðu gefið út græn skuldabréf fyrr árinu 2019 og bent var á nokkur möguleg græn fjárfestingarverkefni sem tengjast umhverfis- og loftlagsmarkmiðum ríkisstjórnar Íslands frá 2018. Þar ber hæst orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi og átak í landgræðslu og skógrækt.

Pólsk stjórnvöld riðu á vaðið með útgáfu grænna ríkisskuldabréfa árið 2016 og 11 ríki fylgdu í kjölfarið. Núna á árinu 2019 voru slík bréf til að mynda gefin út í Síle, Hong Kong og Hollandi. Ekkert norrænt ríki er á þessum lista en ætla má að fyrstu norrænu ríkisskuldabréfin verði gefin út í Svíþjóð.

Hópur 1.jpg

Í hópi 1 voru Eggert Þór Aðalsteinsson, Linda Magnússon, Sigurður Árni Magnússon, Tryggvi Guðbrandsson.

Mesta traust frá því fyrir hrun

Hópar nr. 2 og 3 tóku sérstaklega fyrir Landsbankann annars vegar út frá UFS-viðmiðum og hins vegar aðgerðir hans til að ávinna traust á nýjan leik eftir efnahagshrunið. Stjórnendur bankans hafa undirritað yfirlýsingu um sjálfbær viðmið á öllum stigum starfseminnar. Þar með skuldbindur bankinn sig til að beita sér í gegnum kjarnastarfsemi sína og hafa áhrif til góðs en draga jafnframt úr neikvæðum áhrifum á samfélag og náttúru.

Stærsta áskorun Landsbankans var dregin þannig saman efnislega í máli meistaranemanna: Hve langt á bankinn að ganga í ferli ábyrgra fjárfestinga? Á hann að beita sér með því að bjóða þeim betri kjör sem verja fjármunum til umhverfisvænna verkefna EÐA segja sig beinlínis frá arðbærum framkvæmdum ef þau eru ekki metin sjálfbær?

Dæmi voru tekin af skilgreindum samfélagslega ábyrgum fjárfestingum á vegum Landsbankans frá árinu 2018. Þær vörðuðu endurnýjun fiskiskipaflotans, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og átak við endurheimt votlendis til sveita.

Hópur 2.jpg

Í hópi 2 voru Karítas Ágústsdóttir, Rakel Hrund Fannarsdóttir, Sverrir Eðvald Jónsson, Unndór Jónsson

Hópur 3.jpg

Í hópi 3 voru Axel Friðgeirsson og Guðrún Hrafnsdóttir. Kristín Grétarsdóttir var líka í hópnum en var forfölluð á kynningunni.

Hópur 4.jpg

Í hópi 4 voru Dóra Hlín Loftsdóttir, Fanney Þ. Guðmundsdóttir, Guðrún Sturludóttir, Margrét Þórisdóttir.

Ófullnægjandi upplýsingar

Hópi nr. 5 lék forvitni á að vita hvernig 19 félög með skráð hlutabréf á Nasdaq Iceland uppfylltu skilyrði laga og undirliggjandi tilskipunar frá Evrópusambandinu um ófjárhagslegar upplýsingar um starfsemi sína. Af því tilefni var farið yfir ársreikninga og skemmst er frá að segja að niðurstaðan var sú að þessi upplýsingamiðlun væri ófullnægjandi í heildina tekið. Dæmi eru um fyrirtæki sem leggja sig eftir því að fylgja vel bókstaf laga og reglna en það teljast undantekningar. Gjarnan er vísað í stefnu fyrirtækis um umhverfismál, félagsmál, starfsmannamál, mannréttindamál og fleira en litlar upplýsingar er hins vegar að hafa um hvernig stefnunni er framfylgt. Það vantar niðurstöður mælinga í samanburði við sett markmið, ef undan eru skildar staðfestar upplýsingar um jafnlaunavottun.

Hópur 5.jpg

Í hópi 5 voru Áslaug Baldursdóttir, Guðrún Heiða Guðmundsdóttir, Margrét Flovenz, Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir.