IcelandSIF hélt morgunfund þann 21. september 2023 sem var haldinn í húsakynnum Landsbankans undir yfirskriftinni: Frá stefnu til framkvæmdar. Innleiðing UFS þátta og loftslagsáhættu í eignasöfn. Fundurinn var sérstaklega vel sóttur en alls sóttu ríflega 80 manns fundinn.
Við viljum þakka öllum þeim sem mættu á fundinn og hlýddu á erindi Eric Pedersen yfirmann sjálfbærra fjárfestinga hjá Nordea Asset Management (NAM) og Þráins Halldórssonar gagnasérfræðings þar sem farið var yfir innleiðingu UFS þátta í eignasöfn og loftslagsáhættu.
Eric fór stuttlega yfir hvernig teymi NAM er sett upp og hvernig virkt eignarhald sé í haft að leiðarljósi í þeirra fjárfestingum og hvaða áhrif fjárfestar geta haft með virku eignarhaldi. Einnig fór hann yfir ástæður þess að innleiða UFS þætti og hvaða aðferðir hægt er að nota til þess. Þar á meðal með svokölluðu „Field- building“ þar sem fimm aðferðir eru dregnar fram til þess að hafa áhrif á fyrirtæki og hagsmunaaðila innan atvinnugreinar til að knýja fram sjálfbærar breytingar. Að endingu fór hann yfir hvernig NAM vinnur með loftslagsáhættu í sínum eignasöfnum og tók Þráinn þá við og sýndi hvernig gagnagreiningalíkön þeirra virka í framkvæmd og hvernig búa má til mismunandi gagnagreiningartól til að styðja við sjálfbærnimarkmið.
Virkilega áhugavert að sjá hversu langt þau hjá NAM eru komin með að vinna með UFS þætti í sýnum eignasöfnum og hvetjum alla áhugasama um að kynna sér efnið í glærunum hér fyrir neðan. Að lokum sköpuðust góðar umræður og spurningar enda málefni sem brennur á mörgum í dag í kjölfar gildistöku fjármálaupplýsingagerðarinnar (SFDR).