Fjölmenni á morgunfundi um siðferðilegar fjárfestingar

27/04/2018

Það var þéttsetinn salur á Grand hóteli á opnum fundi um siðferðileg viðmið í fjárfestingum íslenskra lífeyrissjóða þann 26. apríl sl.

Iceland SIF og Landssamtök lífeyrissjóða stóðu sameiginlega að viðburðinum. Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtakanna, stýrði fundi og umræðum.

Nálgast má glærur, samantekt á efni hvers fyrirlesara og myndir hér fyrir neðan.

Samantekt

Á fundinum kynnti vinnuhópur á vegum IcelandSIF ásamt öðrum sérfræðingum greiningar á því hvaða sjónarmiða og viðmiða mögulegt er að líta til þegar lífeyrissjóður setur sér stefnu um siðferðileg viðmið í fjárfestingum í samræmi við breytingar sem gerðar voru á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem tóku gildi um mitt síðasta ár.

Lagaákvæðið gerir lífeyrissjóðum skylt að setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum (36. gr. laga nr. 129/1997). Nánari afmörkun á þessu atriði er á hendi hvers sjóðs.

Siðferðileg viðmið í fjárfestingum 

Salvör Nordal, siðfræðingur opnar fundinn og fjallar um hlutverk siðareglna, aukna áherslu á setningu siðareglna í kjölfar bankahrunsins og hvaða siðferðilegu viðmið skipta máli í fjárfestingum.

Siðfræðin veitir ekki ákveðin fastmótuð svör við spurningum, heldur þarf hver lífeyrissjóðanna að fara í sína eigin vegferð á sínum forsendum og mun þessi siðferðisumræða vera sífelld og mun aldrei gefa endanleg svör.

Á mörgum sviðum í samfélaginu var mikil hvatning til setningar siðareglna í kjölfar bankahrunsins, meðal annars innan stjórnsýslu, á meðal fjárfesta og á öðrum vettvöngum samfélagsins.

Sérstaða hins litla íslenska samfélags er mikilvæg í samhengi siðferðis, við þurfum að vera opin fyrir því að ekki er hægt að innleiða erlenda staðlað algjörlega hugsunarlaust, við þurfum að aðlaga erlenda staðla og viðmið að okkar samfélagi og að þeir henti okkur.

Þegar verið er að innleiða og vinna eftir einhverjum siðferðilegum viðmiðum er spurningin ekki hvort það er búið að setja reglurnar, heldur hversu inngrónar eru þessar reglur í samfélagi þeirra sem eru að vinna eftir þeim, það er hinn eiginlegi mælikvarði. Ef að þetta er ekki raunveruleg þekking í fyrirtæki og hefur raunveruleg áhrif á því hvernig ákvarðanir eru teknar þá er þetta tilgangslaus vinna.

Siðferði felur ekki í sér einhverja siðavernd, siðfræði er hins vegar ekki móralismi, siðfræði er að við reynum að staðsetja okkur við einhver ákveðin gildi sem skipta raunverulegu máli, sem farið verður eftir, og ef ekki verði farið eftir þeim þá skaði það einhverja. Siðferði og siðferðisreglur eru ekki vöndur sem ætti að vera notaður til að setja sig á háan hest.

Að vera ábyrgur í athöfnum og í starfi felst meðal annars í því að hafa mat á stöðu eða mögulegri ógn, skilning á afleiðingum fyrir aðra, sjálfstæði og dómgreind (gagnrýna hugsun), siðferðileg viðmið eða gildi liggi til grundvallar ákvarðana og að skýrar skyldur séu tengdar hlutverki eða fagstétt.

Siðareglur eiga að vera leiðbeinandi um góða starfshætti, hún gefur engin tiltekin ákveðin niðurnjörfuð svör, heldur leiðbeiningar til þess að túlka í ákveðnum aðstæðum.

Öll dæmi sýna að siðareglur verði ekki hluti af starfi fyrirtækis án þess að það fari fram virk umræða um siðareglurnar. Það er mikilvægt að grasrótin í fyrirtækjum taki virkan þátt í því að móta siðareglur.

Það er mjög eðlilegt að það sé ágreiningur um niðurstöður, það er oft þannig og það er eðli siðareglna. Það er oft þannig að til eru margar góðar nálganir að ákveðnum málefnum og getur skapast ágreiningur um hver þeirra sé hin rétta leið, það er hollt að þessi umræða eigi sér stað.

Salvör kynnir hugtakið ESG (Environmental, Social, Governance) (í. Umhverfi, samfélag, stjórnarhættir), í kynningunni eru dæmi um atriði sem falla undir hvert atriði en ekki tæmandi upptalning. Ný tækni og nýjar vörur geta til dæmis leitt af sér ný ESG atriði sem þarf að taka til.


Viðmið eftirlitsaðila með umhverfis og samfélagslegum þáttum við fjárfestingar 

Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu varpar ljósi á þau viðmið sem eftirlitsaðilar innan OECD og EIOPA munu nota við eftirfylgni og upplýsingagjöf er varðar umhverfis- og samfélagsþætti.

Þegar lífeyrissjóðir eru að fjárfesta þurfa þeir að taka tillit til ESG málefna. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 skulu lífeyrissjóðir setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum. Á að vera á hendi hvers og eins sjóðs, FME mun líklega ekki setja viðmið eða reglur um setningu siðferðilegra viðmiða á næstunni. FME ætlar ekki að fara að kenna lífeyrissjóðum hvernig á að vinna þetta.

ESG atriði fá stöðugt meira vægi í fjárfestingum lífeyrissjóða, sjóðfélagar, fjárfestingateymi og hagsmunaaðilar hafa sífellt meiri áhuga á þessum atriðum og pressa á að frekar verði tekið tillit til þessara atriða í fjárfestingum.

Þessi þrýstingur hefur komið fram á fleiri vettvöngum, til dæmis á leiðtogafundi G20 ríkjanna í Kína í september 2016 þar sem mikilvægi grænna fjárfestinga og hlutverk stofnanafjárfesta í grænum fjárfestingum var áréttað.

Í Danmörku eru umhverfis- og samfélagslegir þættir komnir inn í löggjöf um lífeyrissjóði. Kveðið á um það í skýrslu stjórnar að það þurfi að fjalla um mannréttindi, félagslega þætti, umhverfisþætti, loftslagsmál og spillingu. Það þarf að vera skýrt í skýrslu til eftirlitsins hvernig framkvæmd á þessum þáttum er og hver árangur hefur verið af þessari framkvæmd. Ef sjóður hefur ekki stefnu í ofangreindum málum þá skal hann gera grein fyrir því til eftirlitsins af hverju svo er ekki (e. comply or explain), þetta getur til dæmis verið vegna smæðar sjóðs eða ef hann er lokaður.

Í Hollandi hafa langtum flestir sjóðir innleitt viðmið um ESG og hafa virka stefnu um sjálfbærni. Sjóðirnir eru þó mislangt komnir með þessi mál. Einungis um 7% af heildareignum í umsjón lífeyrissjóða í Hollandi eru hjá sjóðum sem hafa ekki stefnu og viðmið um ESG og sjálfbærni. Áhugavert er að lífeyrissjóðir í Hollandi hafa sameiginlegan vettvang þar sem þeir geta kosið um aðgerðir gegn fyrirtækjum.

Eftirlitsstofnanir í Bretlandi hafa komið á fót umræðuvettvangi um umhverfis- og samfélagslega þætti.

Frá sjónarhorni FME er verið að auka vægi áhættumiðaðs eftirlits (áhættustýring, eignastýring og stjórnarhættir), þar geta umhverfis- og samfélagslegir þættir haft mikið að segja, þar má nefna atriði eins og orðsporsáhættu, fjárhagslega áhættu og takmörkun fjárfestingartækifæra sem beina afleiðingu umhverfis- og samfélagslegra þátta. Það á líka að horfa á þetta sem tækifæri, þeir sem standa sig vel í þessum atriðum (ESG) njóta líklega góðs af því.


Aðferðafræði danska ATP lífeyrissjóðsins 

Kristján Geir Pétursson, lögfræðingur hjá Birtu lífeyrissjóði fjallar um aðferðafræði danska ATP lífeyrissjóðsins við skimun, gagnaöflun og íhlutun í einstökum félögum sem hluthafi.

Kristján nálgast erindið sem dæmi um aðferð við að nálgast siðferðileg viðmið í fjárfestingum.

Kristján áréttar það að IcelandSIF er sjálfstæður fræðsluvettvangur. Hver og einn fyrirlesari kemur með sína sýn og dæmi um það hvernig er hægt að nálgast þennan málaflokk, þetta eru ekki leiðbeiningar eða tilmæli um hvernig eigi að nálgast þessi atriði frá IcelandSIF.

ATP sjóðurinn nálgast ábyrgar fjárfestingar út frá ESG viðmiðum. Í stefnu sjóðsins stendur að fyrirtæki sem fjárfest er í brjóti ekki ítrekað og af ásetningi landslög í heimaríki fyrirtækis né alþjóðaskuldbindingar sem Danmörk hefur undirgengist.

Forsendur ATP sjóðsins í stefnunni er að það sé samkvæmni í meðhöndlun allra mála, að það sé fyrirsjáanleiki í meðferð sjóðsins, að það sé festa og eftirfylgni í meðferðinni og gagnsæi sem felst meðal annars í svörtum lista fyrir fjárfestingar.

ATP trúir því að ESG stefna bæti gæði fjárfestinga, að ákvörðunartakan sé betur ígrunduð og að þetta sé einnig áhættustýringartæki. Að sjóðurinn dragist ekki inn í neikvæða umræðu um atvik sem eiga við um fyrirtæki sem fjárfest er í.

Skimunarferli ATP er lagskipt, þriggja fasa skimun sem er megindleg, eigindleg og gagnaöflun sem er oft skrifleg samskipti(e. quantitative screening, qualitative screening og fact-finding).

Í megindlegri greiningarvinnu er verið að styðjast við aðkeypta greiningarvinnu.

Í eigindlegri skimun eru aðilar sem skora lágt í megindlegri greiningarvinna skoðuð frekar af ESG teymi ATP.

Ef liggur fyrir rökstuddur grunur um brot eða það liggur fyrir vafamál um hvort að fyrirtækið falli undir fjárfestingarstefnu sjóðsins er farið í frekari gagnaöflun hjá opinberum aðilum, öðrum fjárfestum, almenn umfjöllun, fjölmiðlar, o.fl. Umfang þessarar vinnu getur verið mjög mannfrekt og meðferð mála tekið allt að nokkrum mánuðum.

ESG teymi ATP leggur málið fyrir nefnd um samfélagsábyrgð innan ATP sem tekur ákvörðun um hvort að fara eigi í tvíhliða viðræður við fyrirtæki ef talið er að það geti skilað árangri, eða að fyrirtæki verði sett á útilokunarlista.


Siðferðisleg viðmið hjá sænsku AP-sjóðunum 

Árni Hrafn Gunnarsson, lögfræðingur hjá Gildi lífeyrissjóði fjallar um lagalegan grundvöll siðferðis- og umhverfisviðmiða hjá sænsku AP-sjóðunum.

AP-sjóðirnir í Svíþjóð hafa það hlutverk að ávaxta iðgjöld almenna (opinbera) lífeyriskerfisins í Svíþjóð. Um starfsemi sjóðanna gilda sérstök lífeyrissjóðalög, þau eru ekki ósvipuð íslensku lögunum, þar er mælt fyrir um starfsemi sjóðanna og magnbundnar takmarkanir varðandi eignaflokka sem fjárfesta má í.

Í undirbúningsgögnum sænsku laganna (en ekki í lögunum sjálfun) er tekið fram að ákvarða skuli með hvaða hætti tekið er tillit til siðferðis- og umhverfismála við val á fjárfestingum. Sjóðunum er falið að útfæra framkvæmd viðmiða á þann hátt sem er viðeigandi fyrir viðkomandi sjóð.

Þetta eru almennir sjóðir sem ávaxta skyldubundið iðgjald og þeir sem eiga réttindi geta ekki fært sig annað. Af þessum sökum er talið að sjóðirnir verði að byggja viðmið sín á almennt viðurkenndum gildum og viðmiðum, t.d. alþjóðasáttmálum og sambærilegum alþjóðlegum viðmiðum. Dæmi um sáttmála og viðmið eru mannréttayfirlýsing SÞ, barnasáttmáli SÞ, sáttmáli SÞ gegn spillingu, réttindi starfsmanna fyrirtækja (ILO), bann við jarðsprengjum og klasasprengjum og bann við kjarnorkusprengjum.

Oft eru þetta einhverjar stefnuyfirlýsingar og viðmið í þessum sáttmálum, og þarf að túlka og útfæra í hverju tilviki fyrir sig hjá sjóðunum.


Norski olíusjóðurinn 

Óli Freyr Kristjánsson, sérfræðingur í eignastýringu fagfjárfesta hjá Arion banka fjallar um siðferðisleg viðmið norska olíusjóðsins, samspil norska Seðlabankans, siðaráð sjóðsins og norska fjármálaráðuneytisins. 

Óli Freyr kynnti sögu olíusjóðsins og hvernig norska Stórþingið og fjármálaráðuneytið sinna utanumhaldi sjóðsins.

Siðaráð sjóðsins var stofnað árið 2004. Árið 2009 voru siðferðileg viðmið sjóðsins endurmetin og árið 2015 var verklagi siðaráðs sjóðsins breytt. Sjóðurinn leggur tilmæli til Seðlabankans sjálfs en ekki til fjármálaráðuneytisins.

Sjóðurinn fjárfestir ekki í hlutabréfum innanlands, fjárfestingar í hlutabréfum eru nokkuð vel dreifðar yfir heiminn en eru þó stærstir í Evrópu. Nýverið voru fréttir um ósk sjóðsins að bæta við fjárfestingum í óskráðum bréfum sem var hafnað af fjármálaráðuneytinu. Í lok árs 2017 er sjóðurinn fjárfestir í um 9.200 félögum í 72 löndum.

Möguleiki á að greiða úr sjóðnum í samræmi við vænta ávöxtun sjóðsins, til að mæta fjárlagahalla og stuðla að stöðugleika í norska hagkerfinu.

Stórþingið ber formlega ábyrgð á stjórnun sjóðsins fyrir hönd norsku þjóðarinnar, fer með löggjafarvaldið og setur sjóðnum leikreglur með setningu laga.

Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á sjóðnum gagnvart Stórþinginu og veitir Seðlabanka Noregs umboð til að sjórna sjóðnum.

Siðaráð sjóðsins metu hvort fjárfestingar sjóðsins í einstökum félögum séu í samræmi við siðferðileg viðmið sjóðsins. Allar greiningar sem eru framkvæmdar á fyrirtækjum eru gerðar opinberar, hvort sem þær leiða til útilokunar eður ei.

Siðferðileg viðmið sjóðsins eru skylda til að tryggja ávöxtun sjóðsins þannig að framtíðarkynslóðir Norðmanna megi njóta góðs af olíuauðlindinni. Einnig er í viðmiðunum vísað í skyldu sjóðsins til að virða grundvallar réttindi þeirra sem verða fyrir áhrifum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í.

Aðferðir sjóðsins við útilokun eru útilokun byggð á framferði, útilokun byggð á starfsemi og í gegnum virkt eignarhald.

Sjóðurinn tekur virkan þátt í félögunum sem þeir fjárfesta í og tóku þar þátt í 11.084 aðalfundum á árinu 2017, og áttu 3.252 fundi með stjórnendum fyrirtækja til að hvetja stjórnendur til að taka á ákveðnum þáttum.


Praktísk nálgun á PRI 

Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna fjallar um dæmi um beitingu ,,ESG/USS“ viðmiða við mat á fjárfestingakostum og eftirfylgni með þeim. (Environmental-Social-Governance / Umhverfi-Samfélag-Stjórnarhættir).

Tómas ræddi um að ESG málefni kalli á fólk með ólíkan bakgrunn og sérfræðinga á þeim sviðum sem viðkomandi fjárfestingar og málefni varðar.

ESG er skilvirkt eignastýringar- og áhættustýringarverkfæri, og getur bætt ákvarðanatöku lífeyrissjóða.

Það er mikið fjallað um ESG mál og tengd málefni í fjölmiðlum erlendis, mun meira en hér á landi. Aktívistasjóðir (e. activist funds) ræða mikið um ESG málefni, eru virkir í að taka ákvarðanir þar og fylgja þeim eftir, að þetta sé til að tryggja arðsemi fjárfestingar þeirra fyrst og fremst.

Gallar í virðiskeðju félaga (H&M, Nike, BP, o.fl.) hafa skaðað mörg félög gríðarlega. Góðir stjórnarhættir eru því lykilatriði. Ekki einungis að fjárfesta í félögum sem hafa góða stjórnarhætti, heldur einnig að hjálpa félögum sem gætu bætt sína stjórnarhætti að vinna að því.

Ný tilskipun ESB um starfstengda lífeyrissjóði sem verður innleidd á næstunni, þar er skilgreint að lífeyrissjóðum sé veitt bein heimild til að taka tillit til ESG þátta við fjárfestingar, að ESG þættir séu mikilvægir varðandi fjárfestingarstefnu og áhættustýringu og að lífeyrissjóðir þurfi að gera grein fyrir því hvernig ESG er tekið með í reikninginn við fjárfestingarákvarðanir og í áhættustýringu.

Tómas tók dæmi um samtal sem LIVE átti við „private equity“ sjóð um innleiðingu ESG við mat á fjárfestingarkostum, eftir gott samtal var innleidd stefna um að fyrirtæki sem fjárfest er í ber að fylgja lögum og reglum, horfa skuli til leiðbeininga um góða stjórnarhætti og almennra siðferðilegra viðmiða.

Tómas telur að lífeyrissjóðir geti verið sterkir aðilar í að hvetja sjóði og aðra aðila til að taka mið af sjónarmiðum ESG við mat á fjárfestingarkostum.


Eru til mælikvarðar fyrir ábyrgar fjárfestingar?

Eva Margrét Ævarsdóttir, lögfræðingur hjá Arion banka fjallar um helstu viðmið sem notuð eru við ófjárhagslega upplýsingagjöf fyrirtækja, t.d. GRI, UNGC og leiðbeiningar Nasdaq og hvernig þau geta hjálpað við mat á ESG þáttum fjárfestingakosta.

Eva kynnti heimsmarkmið Sameinuðu Þjónanna sem voru sett fram árið 2015 og ræðir hvernig þau geti haft áhrif á ákvarðanir og hegðun fyrirtækja.

Samkvæmt rannsóknum er auðlindanotkun á jörðinni um 50% meiri en sjálfbært er, og getur það ekki enst í langan tíma.

Það vakti mikla athygli fyrir nokkrum árum síðan þegar Rockefeller fjölskyldan sem eignaðist auðfæri sín vegna olíu og annarra auðlinda ætlaði að færa fjárfestingar sínar yfir í græna orku og grænar fjárfestingar.

Lífeyrissjóðum skylt að birta ófjárhagslegar upplýsingar sem eru viðeigandi fyrir sjóðinn í skýrslu stjórnar. Þarna þurfa allir að hugsa hvaða upplýsingar eru viðeigandi og þarf að fjalla um.

ESG mál geta haft áhrif á frammistöðu félags. Athafnir fyrirtækis gagnvart umhverfi gefa mynd af stefnu við nýtingu auðlinda, hegðun fyrirtækis í samfélaginu kemur fram í starfsánægju o.fl. tengt starfsfólki og stjórnarhættir fyrirtækis gefa mynd af ákvarðanatöku stjórnenda, orðsporsáhættu, áhættustýringu, gegnsæi o.fl.

Það eru til nokkrar mælistikur verðandi efnahagsmál, umhverfismál, starfsmannamál, mannréttindi, samfélag, vörur og þjónustu. Sameinuðu Þjóðirnar, PRI, Nasdaq, GRI, ISO, OECD og ILO eru dæmi um aðila sem hafa verið að taka saman upplýsingar um viðmið og mælistikur í þessum málefnum.


Myndir frá fundinum

icelandsif-radstefna2704_2.jpg

icelandsif-radstefna2704_1.jpg

icelandsif-radstefna2704_5.jpg

icelandsif-radstefna2704_6.jpg

icelandsif-radstefna2704_4.jpg

icelandsif-radstefna2704_3.jpg