IcelandSIF hélt fund þann 2. nóvember 2023 sem haldin var í sal Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni: ESG lögsóknir og ábyrgð stjórnenda. Um 100 manns voru skráðir á fundinn. Við þökkum öllum þeim sem mættu á fundinn og hlýddu á erindi Róberts Spanó og pallborðsumræður sem haldnar voru í kjölfarið. Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, stýrði umræðunum en pallborðið var ásamt Róberti Spanó skipað Tanya Zharov, aðstoðarforstjóra Alvotech og Vicki Preibisch, forstöðumanni sjálfbærni hjá Controlant.
Róbert fór yfir í erindi sínu þróun á hugtakinu sjálfbærni frá upphafi til dagsins í dag. Þá kom fram að meginreglur sameinuðu þjóðanna sem samþykktar voru árið 2011 (The United Nations Guiding Principles on Business and Human Rigts) séu að hans mati hugmyndafræðilegur grundvöllur að allri sjálfbærni tengdri löggjöf sem unnin er á vettvangi Evrópusambandsins (ESB). Þessar reglur ásamt leiðbeiningum OECD um alþjóðleg fyrirtæki (the OECD Guidelines on Multinational Enterprises) breyta mannréttindahugsuninni úr því að vera lóðrétt á milli ríkis og borgaranna yfir í það að mannréttindi séu eitthvað sem fyrirtækjum ber að stuðla að og vernda í samskiptum við borgaranna. Þetta felur í sér umbreytingu sem felst í því að fyrirtæki eru orðin drifkraftur í vernd mannréttindi í hinum vestræna heimi.
Róbert fór þá yfir það hvernig ESB hefur tekið skref í þessa átt. Fyrsta skrefið er að krefjast skýrslugjafar með Sustainable Financial Disclosure Regulation (SFDR) og EU Taxonomy reglugerðinni. Á grundvelli skýrslugjafa hefst svo eftirlit með fyrirtækjunum. Næsta skrefið sem ESB hefur tekið er að skoða inntak skýrslna og krefjast breytinga á viðskiptamódeli fyrirtækja í átt að sjálfbærni. Þær kröfur koma inn með Corporate Sustainability Reporting tilskipuninni (CSRD) og Corporate Sustainability Due Diligence Directive (CSDDD) sem taka fyrrnefndar leiðbeiningar SÞ og OECD með í reikninginn. Að endingu fór Róbert yfir hvernig umhverfishlutinn í „ESG“ eða „UFS“ og þar með áhersla á loftslagsbreytingar hefur verið grundvöllur fjölda lögsókna gagnvart fyrirtækjum alþjóðlega og er ljóst að aukning varð í slíkum málum í kjölfar undirritun Parísarsamkomulagsins árið 2015. Róbert nefndi að lokum að Mannréttindadómstóll Evrópu væri með mál í gangi sem munu ráða úrslitum um þær kröfur sem lagðar eru á ríki til að setja fyrirtækjum reglur tengt loftslagsbreytingum.
Í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður þar sem erindi Róberts var rætt nánar út frá sjónarhorni fyrirtækja og fjárfesta og sköpuðust út frá því umræður.