Haldinn var hádegisfundur á vegum IcelandSIF þann 21. mars 2024 í gegnum fjarfundarbúnað Teams undir yfirskriftinni CSRD frá sjónarhóli fjárfesta. Fundargestir fengu fræðslu um hvernig kröfur CSRD (e. Corporate Sustainability Reporting Directive) löggjafarinnar horfa við fjárfestum.
Fyrst tók til máls Hlédís Sigurðardóttir, sjálfbærnistjóri Arion banka og sagði hún frá ferli bankans við innleiðingu á CSRD og hvernig tilskipunin horfir við stóru fjármálafyrirtæki. Hlédís fór meðal annars yfir þau skref sem voru tekin við gerð tvöfaldrar mikilvægisgreiningar og eftirfylgni við hana. Hún sagði einnig frá muninum á GRI og ESRS-staðlinum, en bankinn hefur hingað til stuðst við GRI við upplýsingagjöf.
Glærur úr erindi Hlédísar má nálgast hér.
Næst talaði Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, sjálfbærnistjóri Embla Medical, um áhrif tilskipunarinnar á samstæðuna og þau tækifæri sem CSRD hefur í för með sér fyrir félag sem er skráð á markað. Bergþóra sagði einnig frá upplýsingagjöf CSRD með hliðsjón af kröfum fjárfesta.
Glærur úr erindi Bergþóru má nálgast hér.
Næstur var Alexander Berg, sjálfbærnisérfræðingur hjá Nordea Life & Pension. Hann veitti innsýn í CSRD og hvernig löggjöfin horfir við alþjóðlegu fjármálafyrirtæki sem er fremst í röðinni þegar kemur að sjálfbærni og sjálfbærum fjárfestingum. Alexander kom meðal annars inn á hvernig CSRD horfir við Nordea annars vegar sem félagi sem skylt er að veita CSRD upplýsingar og hins vegar í hlutverki fjárfestis.
Glærur úr erindi Alexanders má nálgast hér.
Síðastur tók Bjarni Herrera, stofnandi og forstjóri Accrona, til máls og sagði frá CSRD í stærra samhengi, samspili tilskipunarinnar við regluverk sjálfbærra fjármála og áhrifum hennar fram á veginn. Bjarni fór meðal annars yfir hvernig löggjöfin horfir við mismunandi tegundum fjárfesta.
Hér að neðan má finna upptöku af viðburðinum: