Afstaða stjórnmálaflokka til fjárhagslegra hvata fyrir loftslagsvænar fjárfestingar

26/11/2024

*Fréttin var uppfærð 27. nóvember 2024

Aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum var uppfærð árið 2024. Áætlunin útlistar 150 aðgerðir sem snúa að orkuskiptum, þróun sjálfbærra lausna og innviðauppbyggingu. Hluti þessara aðgerða snýr að fjárhagslegum hvötum sem ýta undir fjárfestingar og nýsköpun atvinnulífs, sveitarfélaga og samfélagsins alls í þágu loftslagsmála. Hvatarnir hafa bein eða óbein áhrif á virði fjárfestinga, flæði fjármagns og framtíðarhorfur íslenska hagkerfisins.

Í tilefni komandi Alþingiskosninga sendi IcelandSIF út spurningar til allra stjórnmálaflokka í framboði. Tilgangurinn er að fá innsýn í það hvernig umhverfisstefnur flokkana samræmast fjárhagslegum hvötum til loftlagsvænna fjárfestinga sem eru útlistaðir í aðgerðaáætlun ríkisins í loftlagsmálum.

Allir flokkar fengu tveggja vikna frest til að til að svara spurningunum, ásamt áminningu. Svör bárust frá samtals átta stjórnmálaflokkum:

  • Framsókn,
  • Lýðræðisflokknum,
  • Miðflokknum,
  • Pírötum,
  • Samfylkingunni,
  • Sjálfstæðisflokknum,
  • Viðreisn og
  • Vinstri Grænum.

Hér að neðan má sjá svör flokkanna við spurningum IcelandSIF í stafrófsröð.

Fyrirvari

IcelandSIF eru óháð samtök sem hafa þann tilgang að efla umræðu og fræðslu um sjálfbærar fjárfestingar. Neðangreindum svörum er aflað í upplýsingaskyni og IcelandSIF tekur ekki afstöðu til neðangreindra viðhorfa.

Framsókn [XB]

1. Hvernig áætlið þið að styðja við fjárhagslega hvata, með það að markmiði að auka sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum, í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum?

Framsókn leggur áherslu á að skapa umhverfi sem hvetur til sjálfbærra fjárfestinga og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum. Þetta felur í sér að tryggja fyrirsjáanleg, fjármögnuð og skilvirk hvatakerfi sem stuðla að aukinni verðmætasköpun. Meðal annars er horft til þess að veita endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar. Með því að fjölga stoðum undir hagkerfinu, meðal annars með áherslu á skapandi greinar og hugvit, er stefnt að því að tryggja áframhaldandi hagsæld og stuðla að sjálfbærum lausnum. Þetta skapar hagstætt umhverfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

2. Samræmist umhverfisstefna ykkar núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum? Ef svo er ekki, hvar liggur munurinn?

Framsókn leggur áherslu á að umhverfisstefna flokksins samræmist aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum með því að einblína á græna og endurnýjanlega orku, nýsköpun og umhverfisvænar lausnir. Flokkurinn vill einfalda regluverk og leyfisveitingaferli fyrir virkjanaframkvæmdir og stuðla að fullnýtingu núverandi orkukosta til að draga úr þörf á nýjum virkjunum. Einnig er lögð áhersla á að beisla vindorku og nýta tækifæri í föngun koltvísýrings.

Ef einhver munur er á milli stefnu Framsóknar og aðgerðaáætlunar ríkisins, gæti hann legið í áherslum á tilteknar aðferðir eða verkefni sem Framsókn telur mikilvægar, eins og að efla orkuöryggi og nýta hagstæðar aðstæður fyrir vindorku. Framsókn vill einnig tryggja að umhverfisstefna stuðli að sjálfbærni og nýtingu á innlendum auðlindum á ábyrgan hátt.

Lýðræðisflokkurinn [XL]

Sjá svar

Lýðræðisflokkurinn telur Ísland þegar hafa skilað sínu framlagi í baráttu við loftslagsbreytingar. Því eigi að leggja niður slíkt regluverk hér á landi.

Miðflokkurinn [XM]

Sjá svar

Miðflokkurinn hefur talað fyrir einfaldara og skilvirkara skattkerfi en margvíslegar og flóknar endurgreiðslu- og millifærsluleiðir vinna gegn því markmiði. Það breytir því ekki að Miðflokkurinn telur að stuðningur við nýsköpun geti verið mikilvægur en farsælast sé að slíkur stuðningur fari í gegnum samkeppnissjóði sem ríkissjóður styður. Skattalegir hvatar geta átt við í ýmsum tilvikum.

Umhverfisstefna Miðflokksins leggur áherslu á að nýta gæði landsins með sjálfbærni og hreinleika sem markmið. Þannig verði gert átak í meðhöndlun úrgangs og fráveitumál efld þannig að þau sæmi matvælaframleiðsluþjóð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænna að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langan veg. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu sem getur í framtíðinni starfað í hátækniumhverfi hér á landi. Hér eru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Um leið er mikilvægt að gerbreyta stefnu Íslendinga í sorpmálum en Miðflokkurinn hefur talað fyrir því að hér verði reist hátæknisorpbrennslustöð. Hingað til hefur langmest af því sorpi sem fellur til verið urðað eða sent til útlanda og óljóst er hvað verður um það þar. Það er ólíðandi. Miðflokkurinn telur brýnt að könnuð verði hagkvæmni þess að við Íslendingar sjáum um okkar sorp sjálf og hættum urðun, endurvinnum þess í stað eins og unnt er og brennum það sem út af stendur á eins umhverfisvænan hátt og unnt er.

Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Miðflokkurinn styður skynsamar lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa. Miðflokkurinn leggur áherslu á að verndun og stjórnsýsla umhverfismála sé sem mest hjá heimamönnum, sé það unnt.

Píratar [XP]

1. Hvernig áætlið þið að styðja við fjárhagslega hvata, með það að markmiði að auka sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum, í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum?

Píratar vilja búa til efnahagslega hvata fyrir grænvæðingu atvinnulífsins, skapa hvata fyrir val á vörum sem menga minna auk þess að móta nýja langtímastefnu fyrir vistvæna og kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu. Hvatarnir geta verið í formi öflugra nýsköpunarstyrkja til grænna sprotafyrirtækja, með skattaívilnunum til grænna fyrirtækja, auknu fé í rannsóknir á þróun grænna tæknilausna og aukinni gjaldtöku á mengandi fyrirtæki til að greiða leið grænna sprotafyrirtækja og frumkvöðla.

Píratar vilja einnig vinna að því að íslenskt fjármálakerfi verði í fararbroddi í grænni fjárfestingu með því að hafa frumkvæði að endurskoðun fjárfestingarstefnu hins opinbera, banka og lífeyrissjóða þannig að stuðlað verði í auknum mæli að fjárfestingum í grænum verkefnum. Einnig viljum við banna fjárfestingar ríkisins í fyrirtækjum sem vinna jarðefnaeldsneyti og setja tímasetta áætlun um að losa um beint og óbeint eignarhald í slíkum fyrirtækjum.

2. Samræmist umhverfisstefna ykkar núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum? Ef svo er ekki, hvar liggur munurinn?

Núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum er gölluð að mörgu leyti og samræmist því ekki umhverfis- og loftslagsstefnu Pírata. Til að mynda er villandi að halda því fram að orkuskipti séu forsenda árangurs aðgerða þegar Parísarsamningurinn kveður á um samdrátt í losun. Eins vantar útreikninga á því hvaða áhrif aðgerðaáætlunin um orkuskipti hafi á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með tilliti til skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Gagnsæi og samráð var í skötulíki við gerð aðgerðaráætlunarinnar og umhverfisverndarsamtök og fleiri kvörtuðu yfir samráðsleysi.

Píratar vilja að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum verði lifandi skjal sem verði uppfært með tilliti til framfara á sviði vísinda og nýrrar þekkingar ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti og alltaf innan sex mánaða frá myndun nýrrar ríkisstjórnar, a.m.k. næstu 10 árin. Ávallt skuli leitast við að setja metnaðarfyllri markmið í hverri nýrri áætlun. Við viljum setja á laggirnar breiðan samráðsvettvang loftslagsmála þar sem ólíkir hagsmunaaðilar geta unnið saman að markmiðum loftslagsáætlunar og að það verði tryggt að stefnumótun vegna loftslagsbreytinga taki mið af réttlátum umskiptum og velsældarmælikvörðum.

Samfylkingin [XS]

1. Hvernig áætlið þið að styðja við fjárhagslega hvata, með það að markmiði að auka sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum, í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum?

Samfylkingin telur nauðsyn grænna fjárfestinga ótvírætt. Samfylkingin telur að beita þurfi fjölbreyttum stjórntækjum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og efla sjálfbærni, til að hámarka skilvirkni loftslagsaðgerða, með jafnræði, sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi. Hagræn stjórntæki eins og kolefnisgjöld og fjárhagslegir hvatar eru mikilvæg tól til að ná markmiðum í loftslags- og umhverfismálum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ásamt samningum, upplýsingagjöf, fræðslu og laga- og reglusetningu. Markmið Samfylkingarinnar er græn umbreyting í íslensku atvinnulífi. Samfylkingin vill að Ísland fylgi fordæmi annarra norrænna ríkja og stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður í opinberri eigu sem leiti samstarfs við einkafjárfesta og sveitarfélög um allt land um uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi og græns iðnaðar. Sjóðurinn taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem þarf að betrumbæta verulega, og af vísinda- og tæknistefnu Íslands. Með því viljum við skapa jarðveg fyrir sprotafyrirtæki, fjárfesta og félagasamtök sem geta unnið að loftslagslausnum með opinberum stuðningi og ýta undir góða stjórnarhætti hjá félögum sem sjóðurinn fjárfestir í. Sjóðurinn gæti m.a. liðkað fyrir þróun tæknilausna til föngunar og förgunar kolefnis og uppbyggingu iðn- og auðlindagarða þar sem virði hreinnar orku er hámarkað og leita leiða til að nýta orku sem nú þegar er framleidd. Samhliða því að draga úr losun frá atvinnulífi leggur Samfylkingin áherslu á aukna nýsköpun sem drifkraft breytinga og fjölgun grænna starfa sem styrkja markmið Íslands í loftslagsmálum, stuðla að varðveislu eða endurheimt umhverfisgæða og vistkerfa, bættri orku- og auðlindanýtingu og lágmörkun úrgangs. Til þess þarf að greiða leið grænna fjárfesta til að styðja við nýsköpunina. Samfylkingin vill styðja við þróun loftslagslausna og græns hátækniiðnaðar og auka vægi loftslagsvænnar atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Þessum markmiðum má meðal annars ná í gegnum græna fjárfestingasjóðinn og með hvötum fyrir sjálfbæra fjárfesta.

2. Samræmist umhverfisstefna ykkar núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum? Ef svo er ekki, hvar liggur munurinn?

Núverandi aðgerðaráætlun í loftslagsmálum er óframkvæmanleg og ófjármögnuð og að verulegu leyti á hugmyndastigi. Samfylkingin telur brýnt að stefnumótun stjórnvalda og lagaumhverfi stuðli að innlendum orkuskiptum og að forgangsraðað verði í þágu orkuskipta, en ekkert í núverandi lagaumhverfi tryggir að orkuframleiðsla nýtist í orkuskipti. Umhverfisstefna Samfylkingarinnar er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Samfylkingin leggur áherslu á að mælanleg loftslagsmarkmið séu lögfest til skemmri og lengri tíma, þak sé sett á losun og að tímasettar aðgerðaráætlanir fylgi markmiðunum sem taki meðal annars á orkuskiptum á landi, hafi og í lofti. Markmið og aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum verða að tryggja að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þá þarf að tryggja að nákvæmt kolefnisbókhald og fullnægjandi eftirlit með losunarmarkmiðunum og aðgerðunum. Stjórnvöldum ber að bregðast við ef fyrirséð er að áætlanir eða markmiðin standast ekki. Samfylkingin áttar sig á því að ríki geta gerst brotleg við mannréttindi með því að grípa ekki til fullnægjandi aðgerða að þessu leyti. Þá verða markmiðin og aðgerðaráætlanir að taka bæði á beinni losun á ábyrgð stjórnvalda og losun frá landnotkun, stóriðju og alþjóðaflugi. Styrkja þarf stjórnsýslu loftslagsmála, forgangsraða opinberum fjármunum til loftslagsmála, tryggja fjármagn og mannafla í málaflokkinn og efla Loftslagsráð í þessum tilgangi. Loftslagsmál hafa snertiflöt við alla málaflokka og vill Samfylkingin sjá samhæfingu þvert á ráðuneyti og málaflokka, þar á meðal að mat verði lagt á frumvörp með tilliti til loftslagsáhrifa jafnt og gert er með tilliti til fjárhagslegra áhrifa, auk þess að stefnur og aðgerðir ráðuneyta verði samhæfðar með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðlögun að loftslagsbreytingum er nauðsynlegur þáttur til að lágmarka tjón samfélagsins af loftslagsbreytingum og er ábyrgt að styðja við aðlögun og baráttu fátækari landa við loftslagsbreytingar og uppbyggingu orkuinnviða.

Sjálfstæðisflokkurinn [XD]

1. Hvernig áætlið þið að styðja við fjárhagslega hvata, með það að markmiði að auka sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum, í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum?

Með einföldun regluverks, skattalegum hvötum, öflugu samstarfi við atvinnulífið og styrkjum úr Orku- og loftslagssjóði.

2. Samræmist umhverfisstefna ykkar núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum? Ef svo er ekki, hvar liggur munurinn?

Ekki að öllu leyti enda er aðgerðaráætlunin unnin af breiðum hópi ráðuneyta í samstarfi við atvinnulífið en áætlunin var unnin undir forystu ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ef flokkurinn hefði einn unnið áætlunina þá tæki hún meira mið af þeim atriðum sem tilgreind eru í svari 1.

Nánar um megináherslur Sjálfstæðisflokksins

Áherslur Sjálfstæðisflokksins varðandi loftslagsmál má finna á xd.is

https://xd.is/malefnin/umhverfismal/

Megináherslur Sjálfstæðisflokksins eru þessar:

Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri. Aðgerðir og ákvarðanir varðandi nýtingu og vernd náttúrunnar skulu teknar með sjálfbærni og framtíðarafkomu þjóðarinnar að leiðarljósi.

Loftslagsbreytingar sökum of mikils koldíoxíðs í lofti og sjó er ein stærsta ógnin við öryggi og efnahag þjóðarinnar. Metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og bindingu kolefnis og markmið um kolefnishlutleysi kalla á skýra sýn og nálgun sem á að byggja á frumkvæði og framtaki einstaklinga og atvinnulífs. Hlutverk stjórnvalda er að skapa það umhverfi að hægt sé að ná settum markmiðum og vega þar þungt aðgerðir sem hvetja til orkuskipta í lofti, láði og legi. Í því samhengi er ljóst að afla þarf grænnar orku svo hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orkugjafa. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að orku- og loftslagsmál séu nú í sama ráðuneyti, enda sitthvor hlið á sama peningnum þar sem óframkvæmanlegt er að ná settum markmiðum í loftslagsmálum nema til komi aukin græn orka.

Loftslagsmál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á markaðshyggju, samkeppnishæft atvinnulíf og lítil ríkisafskipti. Til að draga úr kolefnislosun er farsælast að nýta markaðslausnir og tækni í stað þess að setja fram kröfu um kolefnishlutleysi með íþyngjandi boðum og bönnum á fyrirtæki og einstaklinga. Atvinnulífið hafi þannig frelsi, sveigjanleika og hvata til að þróa og innleiða nýja tækni og aðferðir til að minnka kolefnislosun á hagkvæman hátt. Til að halda losun kolefnis í lágmarki í allri starfsemi hagkerfisins er rétta leiðin að leggja áherslu á lágkolefnishagkerfi.

Það liggur hins vegar fyrir að við munum ekki ná markmiðum okkar í loftslagsmálum án þess að stórauka grænorkuframleiðslu. Það er krafa hér á landi sem og annars staðar í heiminum að einfalda ferla t.d. hvað varðar leyfisveitingar og tryggja að opinberar stofnanir séu skilvirkar. Þess vegna höfum við samhliða unnið að einföldun á öllum sviðum ráðuneytisins, unnið að einföldun leyfisveitingaferla og að sameiningu stofnana.

Helstu verkfærin sem ríkisvaldið beitir til að stuðla að lágkolefnishagkerfi eru:

  • Skattalegir hvatar fyrir atvinnulífið sem leggja áherslu á græna tækni og minni kolefnislosun.
  • Að virkja markaðskerfi eins og viðskiptamarkaði með kolefniseiningar.
  • Með áherslu á nýsköpun í grænni tæki sem miðar að minni losun kolefnis.

Eina leiðin til að ná árangri í loftslagsmálum er samvinna atvinnulífs og stjórnvalda. Slík samvinna samhliða einföldun regluverks og aukin skilvirkni er lykill að árangri. Jafnframt þarf að vera tryggt að ákvarðanir séu byggðar á bestu mögulegu upplýsingum.

Þannig skapast hvati fyrir fyrirtækin til að taka frumkvæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Dæmi um slíkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs er vegvísir um vistvæna mannvirkjagerð sem gefinn var út árið 2022 þar sem byggingariðnaðurinn setti sér markmið um samdrátt í kolefnislosun bygginga á Íslandi um 43% fyrir árið 2030.

Vinstri grænir [XV]

1. Hvernig áætlið þið að styðja við fjárhagslega hvata, með það að markmiði að auka sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum, í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum?

Vinstri græn leggja áherslu á að ríkið stuðli að öflugum fjárhagslegum hvötum til að efla sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í grænum lausnum. Skattalegir hvatar og styrkveitingar eru lykilverkfæri í þessari vegferð, og við höfum unnið ötullega að því að auðvelda fjármögnun nýsköpunar sem styður við loftslagsvænna hagkerfi.

Í stefnu VG er lögð áhersla á hagræna hvata, reglusetningu og loftslagsvænt skipulag, sem og á fræðslu og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Grænar fjárfestingar og loftslagsvæn nýsköpun eru þar í forgrunni.

Vinstri græn hafa frá upphafi lagt áherslu á að efla umhverfi nýsköpunar, svo að hugmyndir geti orðið að veruleika. Þessi nálgun er nauðsynleg til að bregðast við loftslagsvánni, þar sem fjölbreyttar lausnir verða að þróast í samvinnu hins opinbera og einkageirans. Styðja þarf enn frekar við rannsóknir og þróun grænna lausna, sem verða burðarstoð hagkerfis framtíðarinnar og mikilvægt framlag Íslands til loftslagsbaráttunnar á heimsvísu. Gjörbylting hefur orðið á umhverfi nýsköpunar í tíð Vinstri grænna við stjórnvölinn en betur má ef duga skal.

2. Samræmist umhverfisstefna ykkar núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum? Ef svo er ekki, hvar liggur munurinn?

Umhverfisstefna Vinstri grænna samræmist að hluta til núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum, en við teljum þó að hún þurfi að vera metnaðarfyllri til að tryggja raunverulegan árangur. Við viljum ganga lengra en áætlunin gerir ráð fyrir og tryggja aðgerðir sem eru bæði markvissar og fjármagnaðar. Þótt aðgerðaáætlunin lofi góðu á yfirborðinu, er hluti hennar enn aðeins á hugmyndastigi, og stærstur hluti aðgerðanna hefur ekki verið fjármagnaður. Þessi ófullnægjandi fjármögnun dregur úr trúverðugleika áætlunarinnar og skilur eftir mikinn óvissuþátt um hvort markmiðin náist yfirhöfuð. Sömuleiðis var skortur á samráði við gerð áætlunarinnar, þar sem engum umhverfis- og náttúruverndarsamtökum var gefinn virkur þátttökuréttur við vinnunna.

Til að mæta alþjóðlegum skuldbindingum Íslands þurfum við að fjármagna aðgerðir sem draga úr heildarlosun um að minnsta kosti 55 prósent fyrir árið 2030 og tryggja réttlát umskipti í leiðinni. Á meðan losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast á heimsvísu, er brýn nauðsyn að íslensk stjórnvöld sýni ábyrgð og metnað með skýrum og fullfjármögnuðum loftslags aðgerðum. Aðgerðirnar þurfa sömuleiðis að taka tillit til náttúruverndar og líffræðilegrar fjölbreytni.

Viðreisn [XC]

1. Hvernig áætlið þið að styðja við fjárhagslega hvata, með það að markmiði að auka sjálfbærar fjárfestingar og þátttöku fjárfesta í sjálfbærum lausnum, í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum?

Ein af grunnhugmyndum Viðreisnar er að beita markaðslausnum. Helsta áskorun markaðslausna í málefnum sjálfbærni er að ýmis úthrif, svo sem loftmengun og gróðurhúsalofttegundir eru almennt ekki innifalin í verði á vörum. Þetta skapar skekkju á mörkuðum og getur haft neikvæð áhrif á fjárfestingu í grænum lausnum.

Á grundvelli þessa áskorana hefur Viðreisn talað fyrir því að lagt sé hagrænt mat á virði úthrifa. Þannig megi fella samfélagslegan kostnað, sem greiddur er af skattgreiðendum t.d. með útgjöldum til heilbrigðismála, inn í verð á vöru og þjónustu. Þetta er grunnstef kolefnisgjalda.

Viðreisn hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að framfylgja mengunarbótareglunni. Mengunarbótareglan felur í sér viðleitni til að leiðrétta þann markaðsbrest með því að færa ígildi hins samfélagslega kostnaðar inn í verð á vöru og þjónustu.

Nýta ætti tekjur af kolefnisgjöldum og sölu ETS losunarheimilda til að styðja við loftslagsvænar lausnir sem minnka losun fólks og fyrirtækja, t.d. sem tengjast orkuskiptum, með beinum niðurgreiðslum og styrkjum.

Traust regluverk er forsenda þess að nýir markaðir fái þrifist. Viðreisn telur að regluverk ESB í sjálfbærnimálum sé það sterkasta í heiminum. EU Taxonomy, SFRD og CSRD hafa fært okkur ramma um sjálfbærar fjárfestingar. Skilvirk innleiðing þeirra og afleiddra gerða er mikilvæg svo íslensk fyrirtæki hellist ekki úr lestinni. Sérstaða íslenskra fyrirtækja er að starfsemi þeirra er oftar en ekki í samræmi við ýtrustu kröfur þessara reglna. Þess eiga þau að geta notið þegar kemur að fjárfestingum.

2. Samræmist umhverfisstefna ykkar núverandi aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum? Ef svo er ekki, hvar liggur munurinn?

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er að mörgu leyti samrýmanleg áherslum Viðreisnar með einni undantekningu. Í hana vantar, fyrir flestar aðgerðir, bæði kostnaðar og ábatamat aðgerða sem og mat á samdrætti gróðurhúsalofttegunda sem aðgerðum er ætlað að hafa í för með sér. Viðreisn vill að þær aðgerðaáætlanir sem settar eru fram af stjórnvöldum séu vel smíðaðar og hafi bæði mat á þeim árangri sem aðgerðum er ætlað að ná sem og kostnaði sem þeim fylgir.