SFDR var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 25/2023, sem tóku gildi 1. júní 2023.
Reglugerðin leggur tilteknar skyldur á aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa, þ.m.t. rekstraraðila sjóða, lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem sinna eignastýringu eða fjárfestingarráðgjöf, tryggingafélög og lífeyrissjóði.
Markmið reglugerðarinnar er að auka gagnsæi fyrir fjárfesta og auka samræmda upplýsingagjöf.
Aðilar á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafar skulu m.a.:
Hvar á að birta þessar upplýsingar?
Á heimasíðum, í samningum og skýrslum, eftir því sem við á.
Hvað er sjálfbærniáhætta?
Atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar.
Hugtakið er skilgreint í 22. tölul. 1. mgr. 2. gr. SFDR.
Hvað eru sjálfbærniþættir?
Umhverfis-, félags- og starfsmannatengd mál, virðing fyrir mannréttindum, mál sem varða baráttuna gegn spillingu og mútum.
Hugtakið er skilgreint í 24. tölul. 1. mgr. 2. gr. SFDR.
Hvað eru neikvæð áhrif á sjálfbærniþætti?
Þau helstu neikvæðu áhrif af atvinnustarfsemi á sjálfbærniþætti sem má rekja til fjárfestingarákvörðunar, þegar áhrifin eru annað hvort veruleg eða líklega veruleg.
Slík neikvæð áhrif eru á ensku nefnd principal adverse impacts, skammstafað PAI.
Milliliðir á fjármálamarkaði, sem t.d. framleiða fjármálaafurðir, veita ráðgjöf eða stýra eignasöfnum, tengja jafnan saman fyrirtæki og fjárfesta, þar sem hinir síðarnefndu fjárfesta í hinum fyrrnefndu. Þannig eru afurðir oft verðbréf eða sjóðir þar sem undirliggjandi vara er hlutur eða hlutabréf í tilteknu félagi.
Með SFDR reglugerðinni er lögð sú skylda á slíka milliliði að upplýsa um hvort, og þá hvernig, þeir taka tillit til helstu neikvæðu áhrifa fjárfestingarákvarðana eða -ráðgjafar á sjálfbærniþætti.
Orðasambandið er notað í SFDR reglugerðinni (reglugerð ESB nr. 2019/2088) og afleiddum tæknistaðli ESB nr. 2022/1288 sem lýsir nánar kröfum um efni, aðferðir og framsetningu upplýsinga að því er varðar neikvæð áhrif á sjálfbærniþætti.
Tæknistaðallinn hefur ekki verið innleiddur í íslensk lög.
Hverjir þurfa að taka tillit til neikvæðra áhrifa á sjálfbærniþætti?
Það er ekki skylda fyrir milliliði að taka tillit til helstu neikvæðu áhrifa á sjálfbærniþætti, nema þar sem starfsmenn eru 500 eða fleiri en veita þarf skýrar upplýsingar um af hverju það er ekki gert.
Milliliðum sem taka tillit til neikvæðra áhrifa ber að upplýsa um hvernig það er gert, hvernig neikvæðu áhrifin eru meðhöndluð og þeim forgangsraðað. Slík upplýsingagjöf skal bæði veitt almennt af milliliðnum og fyrir einstakar vörur sem boðið er upp á, s.s. eignaleiðir eða sjóði.
Tekið er tillit til helstu neikvæðu áhrifa með greiningu á undirliggjandi afurð með notkun svokallaðra sjálfbærnivísa. Slíkir vísir eru nýttir til að mæla hvernig fyrirtæki sem fjárfest er í hefur áhrif á sjálfbærniþætti, en tæknistaðall ESB nr. 2022/1288 leggur m.a. fram 14 skyldubundna sjálfbærnivísa fyrir milliliði sem taka tillit til helstu neikvæðra áhrif á sjálfbærni.
Skyldubundnir “PAI” sjálfbærnivísar* |
---|
1. Losun gróðurhúsalofttegunda (umfang 1, 2, 3 og í heild) |
2. Kolefnisfótspor |
3. Styrkur gróðurhúsalofttegunda í fjárfestingum |
4. Útsetning fyrir fyrirtækjum innan jarðefnaeldsneytisgeirans |
5. Framleiðsla og neysla raforku frá óendurnýjanlegum orkugjöfum. |
6. Raforkuneysla innan áhrifamikilla (e. high-impact) atvinnugeira. |
7. Starfsemi sem hefur neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika á viðkvæmum svæðum. |
8. Losun í vatn |
9. Hlutfall spilliefna og geislavirks úrgangs |
10. Brot gegn ákvæðum hnattræns samkomlags Sameinuðu þjóðanna um siðferð og ábyrgð í viðskiptum (e. UN Global Compact) eða viðmiðunarreglum OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki (e. OECD Guidelines for Multinational Enterprises). |
11. Skortur á aðferðum og ferlum til að hafa eftirlit með hlítingu með samkomlagi Sameinuðu þjóðanna um siðferð og ábyrgð í viðskiptum eða viðmiðunarreglum OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki. |
12. Óútskýrður launamunur kynjanna |
13. Kynjahlutfall stjórnar |
14. Útsetning fyrir umdeildum vopnum (jarðsprengjur, klasasprengjur, efnavopn og líffræðileg vopn). |
*Sjálfbærnivísarnir hafa ekki verið þýddir opinberlega á íslensku , IcelandSIF birtir ofangreint með fyrirvara að þessar skilgreiningar gætu tekið breytingum þegar vísarnir hafa verið þýddir opinberlega.